Í Hafnarfirði var ákvörðun tekin um að stytta viðveru leikskólabarna frá áramótum, með því að takmarka vistunartíma sem hægt er að greiða fyrir við 8,5 klst. Svipuð hugmynd og er á borðunum hjá Reykjavíkurborg, þar sem loka á leikskólum 30 mínútum fyrr en venja hefur verið, eða kl.16:30.

Nú eru 12 leikskóladagar liðnir síðan þessi breyting varð í Hafnarfirði. Fram að áramótum greiddum við fjölskyldan fyrir 9,5 klst. í vistun fyrir leikskólabarnið okkar.

Við erum með eitt barn í grunnskóla og eitt í leikskóla. Flestir morgnar ganga mjög vel, en suma daga gengur aðeins hægar – þannig að við höfum ekki áætlun sem gengur alltaf 100% upp með hvenær við förum með börnin í sinn skólann hvort. Sveigjanlegur vistunartími er því mjög mikilvægur fyrir okkar fjölskyldulíf, sem er ástæðan fyrir því að við greiddum fyrir vistun allan daginn. Það getur munað 20-30 mínútum á því hvenær við mætum á morgnana og 15-60 mínútum á hvenær við getum sótt okkar barn.

Nú erum við í mjög óþægilegri stöðu.

Við, foreldrarnir, erum bæði í vinnu og erum að samnýta bíl og það er munur á milli daga um hvort okkar þarf að vera mætt fyrst, eða getur hætt fyrr. Við búum í Hafnarfirði og sinnum okkar vinnuskyldum að mestu leyti í Reykjavík.

Suma daga náum við að sækja leikskólabarnið okkar nær 16 og aðra daga nær 17. Það var sveigjanleikinn sem var okkur mikilvægur. Hvenær sem við höfum komið til að sækja barnið okkar hefur það alltaf verið þátttakandi í þeirri dagskrá sem var í gangi í leikskólanum. Áhyggjulaust í leik þar til það var sótt. Enda elskar barnið okkar leikskólann sinn og við líka. Leikskólinn er ástæðan fyrir að við eigum áhyggjulausa daga í vinnu og er mikilvægur hlekkur í lífi barnsins okkar. Því leikskólinn okkar er góður, honum er vel stýrt og þar vinnur gott fólk sem hugsar vel um barnið okkar.

Það hefur komið fyrir einn dag frá áramótum að ég var 1 mínútu of sein – ég lagði bílnum kl.16:31 fyrir utan leikskólann og þá var barnið komið inn í fatahengi að byrja að klæða sig. Kannski var hún þarna bara í 1 mínútu en á þessari einu mínútu upplifði barnið svolítið sem ekki hafði gerst áður. Barnið þurfti að velta fyrir sér hvort því hefði verið gleymt og hvað myndi gerast ef við kæmum ekki. Sem betur fer olli þetta barninu ekki miklu raski -en þetta eru samt hugsanir sem aldrei komu upp áður – og ættu ekki að koma upp, jafnvel þó umferðin tefji mömmu um 1 mínútu.

Það er auðvitað ekkert við leikskólann eða kennarann að sakast, tíminn sem barnið er skráð í vistun var liðinn. Það er bæjarins að breyta þessu til baka – að færa okkur í umhverfi þar sem barnið okkar þarf aldrei að hafa áhyggjur af því að við höfum gleymt því.

Aðra daga, frá áramótum, hef ég þurft að klára vinnudaginn heima, vegna þess að ég þurfti að fara fyrr frá vinnu, leikskólabarnið verið sótt fyrst og þurft að sækja hitt foreldrið inn til Reykjavíkur og verið í bílnum í 40-50 mínútur og ég unnið mér í haginn yfir helgi svo ég geti átt styttri daga yfir vikuna.

Á þessum stutta tíma hefur þessi breyting sem sagt valdið okkur miklu álagi, álagi sem stjórnvöldum í Hafnarfjarðarbæ finnst bara eðlilegt að við venjum okkur við. Við erum alltaf með bogann spenntan og að vanda okkur mjög mikið, en nú þurfum við að herða takið og spenna enn meira.

Ég leyfi mér að halda að við verjum flest eins miklum tíma með börnunum okkar og við getum og efast á sama tíma um að þau börn sem eru í leikskólanum eftir kl.16:30 séu þar „af því bara“ – en sé það reyndin er mögulegt að þeim líði betur í skólanum en heima. Að mínu mati er verið að setja þær fjölskyldur sem kaupa vistun eftir kl.16:30 (eða vistun umfram 8,5 klst.) út á jaðarinn, með því að setja þeim takmörk sem ekki ganga upp.

Ég leyfi mér líka að halda því fram að við séum ekki eina fjölskyldan á höfuðborgarsvæðinu sem hefur upplifað aukið álag við svona breytingar.

Ákvörðun um skertan vistunartíma leikskólabarna eða skertan opnunartíma leikskólans – veldur miklu róti og eykur á álag á margar fjölskyldur. Það hefur þegar gert það í mínu tilfelli.

Höfundur er stuðningskona leikskóla og fjölskyldna á höfuðborgarsvæðinu.