Í dag á al­þjóð­legum degi krabba­meins­rann­sókna er vakin at­hygli á mikil­vægi krabba­meins­rann­sókna til fram­fara.

Krabba­meins­fé­lagið hefur staðið að krabba­meins­rann­sóknum í hart­nær 70 ár. Að stundaðar séu krabba­meins­rann­sóknir hér á landi skiptir máli. Bæði vegna þess að hér á landi eigum við afar færa vísinda­menn sem leggja sitt af mörkum til að ná enn betri árangri í bar­áttunni gegn krabba­meinum og til að rann­saka stöðuna hér á landi, til dæmis að­búnað og reynslu fólks. Eftir til­komu Vísinda­sjóðs fé­lagsins árið 2015 hefur 30 ís­lenskum rann­sóknum verið út­hlutað 227 milljónum. Styrkir Vísinda­sjóðsins hafa blásið nýju lífi í krabba­meins­rann­sóknir á Ís­landi.

Á mál­þingi í há­deginu í dag, sem streymt verður ákrabb.is, verða kynntar fyrstu niður­stöður úr Átta­vitanum, yfir­standandi rann­sókn Krabba­meins­fé­lagsins. Yfir 1.100 manns hafa þegar tekið þátt í rann­sókninni og svarað ítar­legum spurningum um reynslu af greiningu og með­ferð. Með niður­stöðunum fást mikil­vægar upp­lýsingar sem fé­lagið mun nýta til að vinna að mál­efnum sjúk­linga. Einnig verða á mál­þinginu kynntar þrjár af þeim þrjá­tíu rann­sóknum sem hlotið hafa styrki úr Vísinda­sjóði Krabba­meins­fé­lagsins.

Stór skref hafa verið stigin varðandi gæða­mat á greiningum og með­ferð krabba­meina með sam­starfi Krabba­meins­fé­lagsins, Land­spítala og Sjúkra­hússins á Akur­eyri sem verður kynnt á mál­þinginu. Með
staðlaðri skráningu fæst yfir­sýn yfir árangur og gæði sem verður hægt að bera saman við önnur lönd. Slíkt nýtist á margan hátt í þágu sjúk­linga.

Krabba­meins­rann­sóknir eru undir­staða þess góða árangurs sem náðst hefur varðandi krabba­mein. Hér á landi hafa lífs­líkur kvenna tvö­faldast á síðustu 50 árum og dánar­tíðni kvenna af völdum krabba­meina hefur lækkað um 35%. Það er hins vegar ekki nærri nóg því hér greinist einn af hverjum þremur lands­mönnum með krabba­mein á lífs­leiðinni. Við þurfum að gera enn betur og vitum að góðar rann­sóknir eru for­senda fram­fara.

Á­góði af sölu Bleiku slaufunnar 2020 mun renna til
krabba­meins­rann­sókna