Jónas Þór Birgisson bæjarfulltrúi á Ísafirði skrifaði í Fréttablaðið 29. ágúst sl. að í umræðu um Hvalárvirkjun sé oft er farið með rangt mál. Um það erum við sammála. En hver hefur rangt fyrir sér?

Bæjarfulltrúinn fullyrðir að afhendingaröryggi á Vestfjörðum muni stórbatna með tilkomu Hvalárvirkjunar og auki á möguleika á að ná seinna meir raunverulegri hringtengingu um Vestfirði.

Í svari við fyrirspurn Landverndar upplýsti Landsnet að allar truflanir á afhendingu rafmagns á Vestfjörðum á árinu 2018 hafi orðið vegna bilana vestan Kollafjarðar. Það er vestan þess staðar sem ráðgert er að tengja Hvalárvirkjun við landsnetið.

Forkólfar Hvalárvirkjunar hafa gert kröfu um að virkjunin verði tengd með jarðstrengjum suður í Ísafjarðardjúp. Í nýlegri skýrslu sem unnin var fyrir Landsnet kemur fram að slík jarðstrenglögn fer nærri því að útiloka frekari lagnir í jörðu í 132kV raforkuflutningskerfinu á Vestfjörðum. Af þeim sökum er stefnt af því að syðsti hluti tengingar Hvalárvirkjunar til suðurs verði loftlína. Samt sem áður er ekki nægur styrkur í kerfinu til þess að það ráði við sæstrengs yfir Djúpið. Einungis verða eftir 10 km jarðstrengslengd til skiptanna til styrkingar 132kV flutningskerfis í fjórðungnum. Ljóst er að áreiðanleg raforkuflutningslína verður ekki lögð út eftir Djúpinu án verulegrar notkunar sæ og jarðstrengja þar sem á línuleiðinni verða veður afar hörð. Það má því segja að Hvalárvirkjun verði til þess að koma í veg fyrir hringtengingu um Djúpið.

Af framangreindum tveimur ástæðum er vandséð hvernig áformuð Hvalárvirkjun stórbætir afhendingaröryggi rafmagns fyrir Vestfirðinga.

Ófagleg niðurstaða Rammaáætlunar og falleinkunn

Það er rétt hjá bæjarfulltrúanum að Rammaáætlun er til þess að leggja faglegt mat á það hvernig mætti finna út hvað við getum hugsað okkur að virkja og hvað ekki. En til að faglegt ferli eins og rammaáætlun nýtist þá verður líka að vinna það rétt. Samkvæmt lögum á Rammaáætlun að byggja á faglegum grunni. Göng staðfesta óyggjandi að Hvalaárvirkjun komst í nýtingarflokk án þess að uppfylla fagleg skilyrði. Auk þess segir skýrt í lögum, að virkjanakosti í nýtingarflokki megi rannsaka nánar en að sú flokkun veiti ekki heimild til virkjunar eins og margir halda.

Þegar Hvalárvirkjun var rannsökuð betur í umhverfismati kom sannleikurinn um hana í ljós; hún kolféll á því prófi.

Bæjarfulltrúinn gefur í skyn að rafmagn frá Hvalárvirkjun muni auka fjölbreytni í atvinnulífi og steypa fleiri stoðum undir gjaldeyrisöflun. Enn hefur lítið sem ekkert komið fram um hvernig eigi að nýta þá raforku sem Hvalárvirkjun gæti framleitt gangi áætlanir VesturVerks um byggingu hennar eftir. Helst er að skilja að raforkan verði nýtt til að HSorka geti mætti sínum núverandi skuldbindingum þegar álag er mikið og þannig losnað við kaup á umframorku frá Landsvirkjun. Sú ráðstöfun stuðlar ekki að fjölbreytni atvinnulífs.

Víðernum eytt fyrir „bitcoin-gröft“

Bæjarfulltrúin líkir þeim sem vara við því að eyða íslenskri náttúru og víðernum til að senda rafmagn í „bitcoin-gröft“ við þá sem á sínu tíma líktu Internetinu við tímabundna „bólu“.

Gagnrýni á „bitcoin-gröft“ byggir á því að orkan fer til starfsemi sem ekki skilar verðmætum fyrir samfélagið. Internetið hefur hins vegar átt ríkan þátt í að auka velsæld. Samlíkingin er því fjarstæðukennd.

Bæjarfulltrúinn heldur því fram að Hvalárvirkjun komi í veg fyrir að rafmagnsreikningur hækki þar sem tilkoma hennar standi undir bótum á dreifikerfi á Vestfjörðum. Nú liggur fyrir að tenging úr Djúpi yfir í Kollafjörð kostar vel á þriðja milljarð króna. Við það bætist kostnaður við tengingu yfir Ófeigsfjarðarheiði, sem hugsanlega verður enn kostnaðarsamari. Bent hefur verið skilvirka lausn til að bæta afhendingaröryggi: að leggja jarðstreng um Dýrafjarðargöng og eyða viðbragðstíma varaaflstöðva með öflugum rafhlöðum.

Vanbúið sveitarfélag

Bæjarfulltrúinn telur það hroka þegar sagt er að íbúar í Árneshreppi séu svo fáir að þeir ráði vart við að taka vandaðar ákvarðanir um stórar framkvæmdir. Hið rétta er að sveitarstjórn Árneshrepps hefur ekki tekið mark á niðurstöðu umhverfismats, m.a. þess efnis að jákvæð áhrif á byggð séu lítil sem engin og tjónið mikið vegna framkvæmda sem spilla náttúru og víðernum. Sveitarstjórnin hefur jafnframt neitað að taka þátt í því að meta aðra og umhverfisvænni möguleika á landnýtingu. Framkomnar upplýsingar um samskipti sveitarstjórnar við framkvæmdaaðila benda til þess að geta örsmárra sveitarfélaga til að sinn svo flóknu og erfiðu máli sem þessu er takmörkuð, sem er skiljanlegt.

Bæjarfulltrúinn fullyrðir að ef innleiða eigi orkuskipti í samgöngum verði það ekki gert öðruvísi en með því að auka raforkuvinnslu. Hið sanna er að einungis 17 % af raforkuframleiðslu hér á landi fer til almennra nota og orkuskortur á því ekki að þurfa að hamla orkuskiptum í samgöngum. Óskynsamleg forgangsröðun er líklegri til að spilla fyrir orkuskiptum en skortur á rafmagni.

Að lokum fullyrðir bæjarfulltrúinn að Hvalárvirkjun snúist fyrst og fremst um bættan hag allra landsmanna en ekki bara Vestfirðinga. En snýst ekki málið fyrst og fremst um skammtímagróða fáeinna Íslendinga og sem ekki greiða krónu fyrir þann skaða sem þeir munu valda gangi áætlanir þeirra eftir? Umhverfisbótareglan er algjörlega hunsuð. Ég er reiðubúinn að koma til Ísafjarðar til þess að ræða framangreind atriði og önnur álitamál sem fram koma í grein bæjarfulltrúans.

Höfundur er formaður Landverndar.