Í Markaðsblaði Fréttablaðsins á þrettándanum segir svo í dálkfregn: „Sparisjóðir geta ekki keppt við einkabanka“. Reynsla sýnir að hér er of mikið fullyrt. Árangur fer eftir aðstæðum, atvikum og ákvörðunum stjórnenda. Og víða er markaðsgeiri sparisjóðs annar og ólíkur þeim markaðsgeirum sem einkabankar leggja mesta rækt við.

Rétt er að sterk leitni einkabanka getur verið útþensla, áhætta og gróði. Og sterk leitni sparisjóðs er oftast öryggi, traust og samfélagsþjónusta. En dæmin um hrun einkabanka eru miklu skelfilegri en dæmin um hrun sparisjóða.

Í þessari sömu dálkfregn segir um sparisjóði að þá „skortir aðhald frá eigendum.“ Rétt er að það hæfir ekki að stofnfjáreigendur í sparisjóði hegði sér eins og áhættusæknir arðsækjendur í einkafyrirtæki eða hlutafélagi. Þetta staðfestir til dæmis reynsla sparisjóðanna sem störfuðu á Reykjavíkursvæðinu á sínum tíma. En margar leiðir eru þekktar til að móta aðhald í rekstri, hvert svo sem rekstrarformið er.

Að breyttu breytanda á það sama við um eigendur einkafyrirtækis eða hlutafélags, til dæmis erfingja, sem leggja alla áherslu á ráðstöfun fjármuna í stað öflunar þeirra. Þetta staðfesta hörmuleg dæmi um hrun margra einkafyrirtækja og hlutafélaga fyrr og síðar.

Í dálkfregninni segir enn fremur: „Þá eiga sjálfseignarstofnanir örðugt með að auka við „hlutafé“ til að fjármagna vöxt eða standast efnahagsáföll“. (Í sjálfseignarstofnun er reyndar talað um stofnfé en ekki „hlutafé“). Samanburður um kostnað af innborgun hlutafjár í hlutafélagi eða af viðbót við höfuðstól í einkafyrirtæki annars vegar við hins vegar lánsfé, er alls ekki einhlítt sá að lánsféð sé ævinlega miklu dýrara. Til lengdar litið er það oft öfugt.

Um þetta er reynsla mjög fjölbreytileg og oftar fylgt rekstrarstöðu og -horfum heldur en rekstrarformi. Aftur á móti býður starfsvettvangur margra sjálfseignarstofnana ekki heldur þá kosti til arðsóknar sem almennt á við um vettvang hlutafélaga og einkafyrirtækja.

Tilefni skrifanna sem hér er vitnað til er sú tillaga að íslenska ríkið eigi ekki að afhenda arðsæknum fjárfestum ríkisbankana. Þess í stað eigi að breyta þeim í sjálfseignarstofnanir sem starfi að almannaheill og arðsóknarlausri samfélagsþjónustu. Bankarnir hafi þá dótturfyrirtæki á þeim þjónustusviðum þar sem arðsókn og áhætta vega þyngst. Í tillögunni er gert ráð fyrir „virkisvörn“ (e. ring-fencing) um almannaþjónustuna og vísað til reynslu Þjóðverja af „Landesbanken“.

Ekki verður séð að þær fullyrðingar Markaðsblaðsins sem hér er vitnað til raski þessari tillögu að neinu leyti.