Fyrir mörgum árum fékk ég hringingu frá æskuvini mínum. Þessi vinur minn er smekkmaður mikill og hafði lengi ætlað sér að festa kaup á Picasso-eftirprentun úr Ikea. Úr varð því að við fórum saman í Ikea sem þá var í Holtagörðum. Ég ætlaði sjálfur að athuga með ramma utan um gamalt danskt auglýsingaplakat.

Í rammadeild Ikea tók á móti okkur ungur maður í gulri skyrtu sem vatt sér að mér öruggum skrefum og bauð fram aðstoð sína. Ég sagðist vera að leita að ramma utan um plakat af stærðinni A2. Ungi maðurinn leit í augun á mér og spurði: „Já, já, við getum skoðað stærðina síðar en hvernig eru veggirnir heima hjá þér á litinn?“

Mér krossbrá: „Veggirnir, hvaða máli skipta þeir, ég er ekki að leita að málningu heldur ramma?“ svaraði ég.

Drengurinn horfði á mig með fyrirlitningu og hækkaði róminn og bætti við að hann væri orðinn dauðþreyttur á smekkleysi fólks sem setti til dæmis hvíta ramma á hvíta veggi. Ég fann blóðið hitna yfir hroka drengstaulans og eftir að hafa neitað að svara til um veggliti heima hjá mér svaraði hann mér að hann ætti ekki ramma í stærðinni sem mig vantaði.

Ég þakkaði fyrir með þjósti.

Starfsmaðurinn snéri sér svo að vini mínum sem sagðist ætla að kaupa Picasso-mynd sem hékk þar á vegg innrömmuð í svartan ramma. Aftur hófst spurningaflóð um veggliti sem vinur minn mat best að svara.

Drengurinn varð þarna allur uppveðraður og talaði um rammaliti og innanhússhönnun þangað til hann þagnaði og sagði svo ískaldri röddu: „Hún er samt mjög dýr þessi mynd, verandi aðeins eftirprentun.“

Vinur minn kinkaði samþykkjandi kolli. Við gengum út tómhentir vitandi að stundum hefur viðskiptavinurinn ekki rétt fyrir sér.