Faxa­flóa­hafnir sem m.a. reka helstu inn- og út­flutnings­hafnir landsins í Reykja­vík hafa metnað til að leggja sitt af mörkum til bar­áttunnar gegn lofts­lags­vandanum og fyrir betri loft­gæðum í borginni. Þess vegna tókum við að okkur að leiða saman öfluga aðila sem sam­eigin­lega geta tryggt land­tengingu stóru flutninga­skipanna meðan þau eru í við­legu í höfnum borgarinnar.

Það er mikið í húfi, því með þessari raf­væðingu má koma í veg fyrir bruna á 663 þúsund lítrum af skipa­gas­olíu á hverju ári, draga úr losun kol­díoxíðs frá hafnar­starf­seminni í borginni um 20% og ná sam­bæri­legri minnkun á losun sex annarra mengandi loft­tegunda, s.s. brenni­steins­díoxíðs og svif­ryks. Í þessu máli gildir sam­stillt átak því rétt eins og í bar­áttunni gegn ham­fara­hlýnun getur enginn einn aðili leyst vandann. Hann verður að­eins leystur með rót­tækum að­gerðum innan lands sem utan þar sem allir leggjast á eitt.

Vilja­yfir­lýsingin sem undir­rituð var 15. maí stað­festi sam­starf Faxa­flóa­hafna og Reykja­víkur­borgar við Veitur, Sam­skip og Eim­skip og síðast en ekki síst um­hverfis- og auð­linda­ráðu­neytis fyrir hönd ríkisins sem með mikil­vægu fram­lagi sínu tryggir endan­lega fjár­mögnun þessa verk­efnis. Ríki, Faxa­flóa­hafnir og Veitur leggja til 100 milljónir hvert um sig og skipa­fé­lögin munu að auki fjár­magna þá breytingu á sínum skipum sem nauð­syn­legar eru til að þær geti nýtt sér land­tengingu í við­legu.

Stefnan er sú að fyrsta raf­tengingin verði til­búin til notkunar á fyrri hluta ársins 2021 og önnur fljót­lega í kjöl­farið. Það er ein­dreginn á­setningur okkar hjá Faxa­flóa­höfnum að þessum mikil­væga á­fanga verði fylgt eftir með raf­tengingu skemmti­ferða­skipa í höfnum Faxa­flóa­hafna í borginni. Þar væri æski­legt að ná sam­starfi Faxa­flóa­hafna, Veitna og ríkisins mögu­lega með að­komu sjóða og/eða fjár­festa. Sú fjár­festing gæti kostað á þriðja milljarð króna. Það er fram­tíðar­músík sem verður raun­hæf innan fárra ára en nú er tími kominn til að tengja flutninga­skipin.