Við færum alltaf stærri og stærri hluta af lífi okkar og sam­skiptum yfir á netið og sam­fé­lags­miðla. Sú til­vera er ekki alltaf ein­föld og út­heimtir að við séum í raun margar út­gáfur af sjálfum okkur. Út á við erum við hnyttin og pólitísk á Twitter, hugsandi og dreymin á Insta­gram og óskum frænkum og frændum til hamingju með af­mælið á Face­book.

Enn ein út­gáfan af okkur er svo í lokuðu grúppunum og spjall­for­ritunum þar sem við erum á einum alls­herjar raf­rænum trúnó; slúðrum, tökum fólk fyrir og látum allt flakka. Þess vegna eru gagna­lekar svo harðir hús­bóndar, þeir sýna á­kveðna hlið á okkur sjálfum sem passar ekkert endi­lega við í­myndina út á við. Og það er sama hversu al­gengir þessir lekar eru, við virðumst aldrei gera ráð fyrir þeim.

Ég hef verið að reyna að hugsa þetta upp á nýtt og reyna að í­mynda mér hvernig minn gagna­leki muni líta út. Eftir smá innri skoðun snýr ótti minn reyndar aðal­lega að því hversu ó­trú­lega ó­spennandi og mið­aldra þetta líti út. Sam­tals­glugginn hjá mér og konunni minni er í raun ára­langur, rúllandi to-do listi. Við skrifum ekki lengur setningar heldur bara praktísk stikk­orð með spurningar­merki, t.d. „sækja?“ og „kvöld­matur?“.

Í spjall­grúppunum þykist ég svo al­mennt vera sniðugri og vita meira um í­þróttir og stjórn­mál en inni­stæða er fyrir.

Ég er að velta því fyrir mér að færa öll mín sam­skipti aftur yfir á land­línuna. Þar getur maður raun­veru­lega verið á inn­soginu án þess að raf­rænt af­rit verði til um aldur og ævi.