Á dögunum horfði ég á sjónvarpsþáttaröð í sænska sjónvarpinu. Um er að ræða nokkurs konar raunveruleikasjónvarpsþætti þar sem tveir hópar sjálfboðaliða eru sendir í sitt hvort húsið. Hóparnir vita ekki hvor af öðrum né hvers er vænst af þeim að öðru leyti en að þau munu standa frammi fyrir áskorunum. Annar hópurinn flytur inn í  nýbyggt og nútímalegt einbýlishús með öllum þeim þægindum sem tæknin býður upp á í dag. Hinn hópurinn er sendur í eldra húsnæði, ekki fjarri hinu. Bóndabær, rauðmálaður með hvítum gluggum, þið sjáið þetta vafalaust fyrir ykkur.

Í ljós kemur að áskorunin sem þau þurfa að takast á við er fyrirvaralaust og langvarandi rafmagnsleysi. Fyrri hópurinn, sem var upphaflega himinnlifandi yfir húsakostinum, glímir við skyndilegt brottfall sjálfsagðra þæginda svo sem hitun, aðgengi að vatni og möguleika á því að elda sér mat. Sá síðari á aðeins auðveldara með að aðlagast rafmagnsleysinu þar sem til staðar er viðarkynding. Þau geta jafnframt gangsett gamla viðareldavél ásamt því að ná í vatn í nærliggjandi stöðuvatn og ávexti og grænmeti af landareigninni. Tengingin við samfélagið verður hins vegar nánast engin þegar batterí í snjallsímum klárast. Eftir því sem tíminn líður verður ástandið  nánast óbærilegt á tímum og eru þátttakendur við það að gefast upp.

Hvers vegna er ég að segja frá þessu sænska sjónvarpsefni? Jú, því við leiðum hugann sjaldan að rafmagnsöryggi, heldur göngum að því sem vísu, á hverri stundu, alla daga ársins. Á sama tíma stöndum við frammi fyrir stórum ákvörðunum í uppbyggingu raforkuflutningskerfisins, ákvörðunum sem þarf að taka á forsendum afhendingaröryggis rafmagns fyrir landið allt ásamt þáttum eins og umhverfisáhrifum og hagkvæmni. Þessar ákvarðanir snúast ekki eingöngu um afhendingaröryggi raforku fyrir hvert og eitt okkar heldur einnig þjóðaröryggi. Hvaðan fáum við orku í samgöngur, þjónustu og framleiðslu ýmissa afurða? Hvernig tryggjum við nægan aðgang að matvælum? Hvernig miðlum við upplýsingum og eigum samskipti? Hvaða viðbragðsáætlanir erum við með sem einstaklingar, sem þjóð? Hvernig er atvinnulífið í stakk búið til þess að takast á við nokkurra klukkustunda eða jafnvel daga straumleysi? Þetta eru allt spurningar sem vert er að velta fyrir sér og undirbúa sig fyrir.

Hvað var oft rafmagnslaust árið 2018?

Við hjá Landsneti tökum árlega saman gögn um frammistöðu flutningskerfisins. Þar eru ítarlega greindar upplýsingar um truflanir, orsakir þeirra og afleitt straumleysi, raforkutöp og gæði rafmagns á afhendingarstöðum um allt land. Okkar einkunnarorð er afhendingaröryggi og allir ferlar í okkar rekstri beinast að því að ýmist koma í veg fyrir straumleysi eða bregðast við því eins skjótt og örugglega og mögulegt er. Árangurinn er mælanlegur, oft gengur vel en það koma einnig stærri áföll þar sem reynir á annars veikt flutningskerfi. Langtímaþróun þessara mælikvarða gefur upplýsingar um áraun kerfisins og hæfni til að sinna hlutverki sínu.

Síðasta ár reyndist okkur farsælt. Fjöldi truflana var undir meðaltali og straumleysi ekki nema brot af viðmiðum og meðaltölum síðustu ára. Alls leiddu 18 truflanir í kerfi Landsnets til straumleysis einhvers staðar á landinu sem er minna en í meðalári.  Við getum verið ánægð með þennan  árangur því við vitum að hann er m.a.  ávöxtur góðrar samvinnu við viðskiptavini, faglegs undirbúnings viðhaldsverka og þróunar snjallnetslausna. En einnig var veðurfar hagstætt á síðasta ári og flutningskerfið stóð af sér þær lægðir sem fóru yfir landið og þannig komumst við hjá langvarandi bilunum. Í samanburði við nágrannalönd eru háspennulínurnar okkar áreiðanlegar og standast samanburð við sambærileg mannvirki annars staðar þrátt fyrir gríðarlega áraun oft og tíðum.

 Nýjar áhættur tengdar ytri þáttum og aukinni sjálfvirkni

Það má þó merkja ákveðna þróun. Ytri þættir eru farnir að hafa meiri áhrif á reksturinn en áður. Raforkukerfið hefur stækkað á síðustu árum. Fjöldi virkjana sem tengjast kerfinu eru fleiri, fjöldi viðskiptavina einnig og bæði framleiðsla og notkun fara vaxandi. Á sama tíma er meginflutningskerfið nærri því óbreytt. Flutningsgeta hefur ekki aukist milli landshluta, eftir byggðalínunni, og því er kerfið enn veikara fyrir truflunum í aðliggjandi kerfum. Fyrirvaralausar truflanir hjá notendum eða framleiðslumegin geta því hrint af stað truflunum í flutningskerfinu. Nokkur dæmi eru um slíkar truflanir á síðasta ári og ein sú stærsta varð 17. febrúar 2018 þar sem fyrirvaralaus álagsbreyting hjá raforkunotanda samhliða viðhaldsvinnu í okkar kerfi hrinti af stað keðjuatburðum sem leiddi til straumleysis á Austurlandi og útslætti framleiðslu m.a. á Norðausturlandi.

Lekur mjólkurfernan? - Hvað tapast á leið úr búðinni?

Sú raforka sem tapast vegna viðnáms í raflínum og spennum í flutningskerfinu kallast flutningstöp. Þau eru ágætur mælikvarði á áraun kerfisins. Með vaxandi áraun og auknum aflflutningi aukast flutningstöpin. Heildarflutningstöp síðasta árs voru rétt yfir 2% af allri orku sem mötuð var inn á kerfið. Séu hins vegar jaðartöpin skoðuð kemur í ljós að vegna aukinnar eftirspurnar milli áranna 2017 og 2018 þá töpuðust 5% af þeirri orku sem flutt var umfram heildarorku ársins 2017. Þetta þýðir að fyrir hverjar 100 kWh sem framleiddar eru inn á kerfið til að mæta aukningu í raforkunotkun þá tapast 5 kWh á leiðinni til notandans. 5% jaðartöp er verulegt óhagræði fyrir alla notendur kerfisins. Þessi jaðartöp jafnast á við það að fara í búðina eftir 1 lítra af mjólk og koma heim með hálfum desilítra minna. Er þetta góð meðferð á auðlindinni?

Nútímasamfélag

Það er ánægjulegt að segja frá góðri, jafnvel framúrskarandi, niðurstöðu í krefjandi rekstri en við megum ekki láta niðurstöðu eins árs skera úr um hina raunverulegu stöðu flutningskerfisins. Eins og sjálfboðaliðarnir í sjónvarpsþættinum, sem fögnuðu hátæknilegum híbýlum sínum þar til rafmagnið fór, þá megum við ekki gleyma okkur í gleðinni yfir stórkostlegum tæknilausnum nútímans án þess að horfast í augu við mikilvægi þeirra innviða sem nútímasamfélag reiðir sig á. Í næstu viku er Landsnet með vorfund sinn sem ber yfirskriftina „Hvað slær út þjóðaröryggi? Framtíð íslenska raforkumarkaðarins“ þá verður einnig Frammistöðuskýrsla Landsnets aðgengileg á vef fyrirtækisins www.landsnet.is