Nú er kominn sá tími árs að við sjáum fólk þeysast um á rafknúnum hlaupahjólum og rafskútum.

Samkvæmt þeim aðilum sem selja mest af þessum raf knúnu farartækjum hefur salan aukist um mörg hundruð prósent á milli ára.

Það er hið besta mál að fólk kjósi að ferðast um á þennan hátt, vistvænn ferðamáti og svo eru til þessar leigur sem gera fólki kleift að sækja sér og skilja eftir þessi farartæki eins og því hentar.

En það eru ekki bara kostir við að ferðast um með þessum hætti, sérstaklega þegar um börn er að ræða. Nú er misjafnt á hvaða aldri börn fara að ferðast um á rafmagnshlaupahjólum og því er það hlutverk foreldra og forráðamanna að sjá til þess að þau séu búin að öðlast þann skilning, þroska og getu til að geta ráðið við rafknúið hlaupahjól í umferðinni.

Rannsóknir hafa sýnt að það er misjafnt hvenær sjón barna er orðin það þroskuð að þau nemi hluti á hreyfingu með jaðarsjóninni, en yfirleitt er það í kring um 7-8 ára aldurinn. Þessi hjól eru flest með stillanlegum hraðabúnaði en algengustu tegundirnar ná í kringum 25 km hraða á klukkustund.

Í sjúkraflutningafræðum/áverkafræðum eru nokkrar skilgreiningar á eðli og umfangi áverka. Sú einfaldasta er skilgreiningin á því sem kallað er háorkuáverkaferli vs. lágorkuferli. Undir háorkuferli væri t.d. fall úr meira en 4m hæð hjá fullorðnum einstaklingi, bílvelta, sjúklingur kastast út úr ökutæki, bifhjólaslys þar sem hraði er meiri en 30 km/klst. og fótgangandi verður fyrir ökutæki á meira en 10 km/ klst. Dæmi um lágorkuferli væri t.d. fall á jafnsléttu.

Nú hefur undirritaður margsinnis orðið vitni að því að sjá bíla snarhemla þar sem börn á ýmsum aldri þjóta yfir gatnamót án þess að líta til hægri eða vinstri, jafnvel hjálmlaus og í þokkabót með annað barn fyrir aftan sig á rafmagnshlaupahjólinu.

Undirritaður hefur jafnframt því miður þurft að meðhöndla börn með höfuðáverka eftir slys sem tengjast farartækjum á ferð og ástæðan fyrir því að vegfarandi sem verður fyrir bíl á meira en 10km/klst. sé flokkað sem háorkuáverki er ekki komin til af góðu.

Þess vegna vill undirritaður beina þeim tilmælum til foreldra og aðstandenda að brýna nauðsyn þess að nota hjálma þegar börn eru á ferðinni, ræða um umferðarreglur og nauðsyn þess að fara varlega yfir gatnamót og þar sem umferð ökutækja er mikil.

Það er aldrei of varlega farið, slysin eru fljót að gerast og betra að ræða þessa hluti við börnin áður en skaðinn er skeður.

Sumt verður einfaldlega ekki tekið aftur.

Höfundur er svæfingahjúkrunarfræðingur, sjúkraflutningamaður og leiðbeinandi við LSH.