Vatnsmýrarsvæðið (Skildinganes, Þóroddsstaðir og Nauthóll) var fært úr Seltjarnarneshreppi til Reykjavíkur 1. janúar 1932 vegna fyrirsjáanlegs skorts á heppilegu byggingarlandi í ört stækkandi höfuðborg.

Frá stríðslokum hafa kjörnir fulltrúar og embættismenn Reykvíkinga ráðið litlu, sem máli skiptir, um skipulag og þróun Reykjavíkur til framtíðar. „Valdið“ færðist jú til ríkisins 1946 þegar það tók yfir kjörlendi borgarbúa í Vatnsmýri undir innanlandsflugvöll fyrir Flugfélag Akureyrar. Kjörlendinu fylgdi auk þess öll lofthelgin yfir Nesinu vestan Elliðaáa. Nýtt þéttbýli spratt upp umhverfis borgina (Kraginn). Höfuðborgarsvæðið (HBS) varð til.

Yfirtaka Vatnsmýrarsvæðisins var ekki eingöngu landtaka heldur um leið svipting ríkisins á veigamiklum hluta af „óskoruðu“ sjálfstæði eða fullveldi sveitarfélagsins Reykjavík, eiginlegt fullveldisrán. Síðan þá hefur ríkið beitt vaxandi hörku gagnvart Reykvíkingum til að halda flugstarfsemi áfram í Vatnsmýri til mikils tjóns fyrir borgarbúa og þjóðarhag á sl. 74 árum.

Ríkið og sveitarfélög í Kraganu sameinast nú um BORGARLÍNU og um að loka Vatnsmýri fyrir miðborgarbyggð með áframhaldandi flugstarfsemi þar til uþb. 2040. Næstu 20 árgangar nýrra borgarbúa verða því að setjast að meðfram strætóleiðum í átt að ysta jaði byggðarinnar.

Í lögum og reglugerðum er hvergi að finna stafkrók um að grundvallarréttindi Reykjavíkur til sjálfstjórnar í skipulagsmálum séu minni eða öðru vísi en annara sveitarfélaga. Réttur Reykvíkinga hvarf ekki á formlegann og rekjanlegann hátt.

Athyglin beinist því að misvægi atkvæða. Ógæfa borgarbúa er nefnilega ótrúleg meðvirkni og undirgefni þingmanna og borgarfulltrúa reykvískra stjórnmálaflokka við landsbyggðaröfl. Árið 2020 eru allir flokkar í borgarstjórn Reykjavíkur og á Alþingi landsbyggðartengdir eins og verið hefur marga undangengna áratugi eða amk. frá stríðslokum. Undantekning er Besti flokkurinn 2010.

Störf hinna kjörnu og stefna þeirra í málum, sem lúta að fjármögnun samgöngumannvirkja, borgarskipulagi og flugvelli í Vatnsmýri, mótast af samfélagslegri bjögun af misvægi atkvæða. Eins konar hefð hefur myndast um þennan undirlægjuhátt en margir kjörnir fulltrúar og embættismenn ríkis og borgar segjast sammála stefnu Samtaka um betri byggð (BB), en ...“þetta er bara pólitískt ómögulegt“...! Eða eins og þáverandi samgönguráðherra sagði 1999: ... „ef flugvöllurinn fer úr Vatnsmýri verður Reykjavík of góð“ ... !

Auðsveipni kjörinna fulltrúa Reykvíkinga er viðhaldið af landsbyggðarfulltrúum, sem ráða lögum og lofum á landsfundunum flokkanna og á Alþingi með vægðarlausri misbeitingu misvægis atkvæða. Hinir kjörnu verja því eigin hagsmuni um endurkjör og hagsmuni framboða sinna um kjörfylgi af auðmýkt og fórna þannig grundallarhagsmunum borgarbúa og þjóðarhag,

þar sem hagsmunir borgarbúa og landsbyggðar fara í raun saman

Vald ríkisins yfir borgarskipulaginu er hvorki raunverulegt né lögvarið heldur byggist það eingöngu á ógnarvaldi misvægis atkvæða. Það sannar stjórnartíð Besta flokksins 2010-2014, sem hafði engin pólitísk landsbyggðartengsl. Besti flokkurinn hlustaði ma. á sjónarmið Samtaka um betri byggð (BB) og tók upp stefnu samtakanna í skipulagsmálum.

Arfleifð Besta flokksins er þokkalega gott Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 (AR2010), sem ríkjandi meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur vill nú breyta og laga að Svæðisskipulagi HBS og óbreyttri hugmynd um BORGARLÍNU (BL) undir miklum þrýsingi ríkisins og sveitarfélaga í Kraganum.

Fyrir því eru gagnsæ og gild rök að slík aðlögun muni valda Reykvíkingum, öðrum borgarbúum og landsmönnum öllum miklum skaða með áframhaldandi stjórnlausri útþenslu byggðar, auknum kostnaði, tímasóun, útblæstri CO2, mengun og glötuðum tækifærum.

Nú þurfa Reykvíkingar fyrir næstu borgarstjórnarkosningar að efna til nýs Reykjavíkurframboðs eða annars stjórnmálafls á borgargrunni, sem gæti gjörbreytt gæfu og framtíð Reykvíkinga til hins betra.