Ekki lesa lengra ef þú nennir ekki tuði um landsbyggðirnar. Engar áhyggjur. Ég verð ekkert fúll þótt þú flettir.

Tuð dagsins snýr að því hve auðveldlega okkur hættir til að gleyma sjónarhorni þriðjungs þjóðarinnar.

Tökum tvö nýleg dæmi.

Á stórum fundi fyrr í vikunni var fjallað um nýbyggingar og hvernig okkur gengur að svara eftirspurn á húsnæðismarkaði um allt land. Þar bar það helst til tíðinda að nær allur slagkrafturinn í uppbyggingu húsnæðis er úti á landi. Þar er allur broddurinn. Eftir skeið langvarandi stöðnunar.

Það var samt ekki fókusinn á fundinum því umræðan snérist öll um svæðið sem stendur í stað. Um það fjölluðu allar ræðurnar. Fyrir utan ræðu bæjarstjóra Kópavogs, sem hefur sjálfsagt átt að tala máli dreifbýlisins. Radíusinn náði sem sagt ekki lengra en út á Kársnes.

Hinn fundurinn var um rafmagn og hve sjúklega dugleg við erum að búa það til. Sígild umræða borin uppi af fólki sem býr í hæfilegri fjarlægð frá þeim svæðum sem þau fjalla um. Fjarvera þeirra sem búa í námunda við uppspretturnar er hins vegar alltaf jafn pínleg.

En það var ekki fyrr en orkufundurinn snérist upp í fagurgala um paradísina Ísland, sem brúnin tók að þyngjast á landsbyggðatúttunni. Undir hjali um hve rík við erum af hreinu rafmagni. Sem svo sprautast upp um niðurföllin hjá okkur. Ef ég skildi rétt.

Hvað um öll þorpin sem við kyndum með olíu? hugsaði vargurinn í salnum. Hvernig falla þau að þessari ímynd draumalandsins? Ætlum við bara að láta eins og það sé fullkomlega eðlilegt að land sem framleiðir margfalt meira rafmagn en það þarf, haldi heilum landshlutum í fjötrum orkuskorts. Sem við plástrum svo með dísilrafstöðvum. Ætlum við ekkert að ræða það? Á fundi um græna orku og loftslagsmarkmið?

Þetta ætti auðvitað að vera fyrsta mál á dagskrá allra orkufunda. Ef við ætlum á annað borð að ræða forgangsröðun.

En það mátar þetta enginn við ímynd allsnægtanna. Vegna þess að þeir sem halda um stýrið þekkja ekki slíkan veruleika. Hann er fyrir utan þeirra sjónsvið. Rétt eins og veruleiki þeirra sem glíma við húsnæðisskort úti á landi.

Við erum alltof gjörn á að gleyma þessum röddum. Sem er vandræðalegt því það er svo lítið mál að breyta þessu og stækka radíusinn.