Stjórnarathafnir ættu eiginlega alltaf að miða að því að bæta velsæld og lífskjör almennings. Því miður er innbyggt í núverandi stjórnarfar að fagráðherrar eru of berskjaldaðir fyrir þrýstingi frá tilteknum hópum að verja þeirra sérhagsmuni, oft á kostnað almennings.

Ríkisvaldið okkar telst þrískipt og stjórnarfarið þingbundin ríkisstjórn. Stuðst er við svipað stjórnarfar en þróaðra hjá nágrannalöndum okkar. Hjá mörgum hefur tekist að aðgreina betur ríkisvaldið og bæta stjórnarfarið með ýmsum hætti.

Flestar þjóðir hafa kosið að styðjast við svo kallað „forsetaræði“ en þá er leiðtogi framkvæmdarvaldsins, „forseti“, kosinn beinni kosningu. Helstu ríkin sem nota þetta stjórnarfar eru Bandaríki Norður-Ameríku, Frakkland og flest þau lönd sem á síðari áratugum hafa tekið upp lýðræði, sum eftir að hafa búið við alræði eða einræði.

Öll stjórnkerfi hafa sína kosti og galla og okkar líka. Þó margt gangi vel hjá okkur gengur annað allt of seint og illa. Vonir margra standa til þess að ný stjórnarskrá muni færa okkur mikilvægar úrbætur. Stjórnlagaráð gerði tillögu um úrbætur hvað varðar betri aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, í drögum að nýrri stjórnarskrá, en þeim breytingum á stjórnarskránni sem lúta að stjórnarfarinu hefur ítrekað verið slegið á frest.

Suma ágalla stjórnarfarsins kann þó að vera hægt að laga með litlum fyrirvara án breytinga á stjórnarskrá, þar á meðal atriði sem geta skipt sköpum.

Losum okkur við ráðherraræðið

Á Íslandi ríkir svokallað ráðherra­ræði. Ráðherrarnir fara með æðsta vald í sínum málaflokki og þurfa ekki samþykki ríkisstjórnar fyrir athöfnum sínum. Fagráðherrar standa margir fyrst og fremst vörð um sérhagsmuni sinna málaflokka á kostnað almennings, en þykjast sumir í seinni tíð vera að vinna í þágu almennings af því að þeir vita að þeir eiga auðvitað fyrst og fremst að gera það.

Auðvitað er mikilvægt að fagráðherrar þekki áskoranir og tækifæri í sínum málaflokki, en framkvæmdin á fyrst og fremst að vera í þágu almennings.

Þannig hlýtur markmið menntamálaráðherra vera að efla þekkingu og hæfni fólksins í landinu þannig að hún verði með því sem best gerist en ekki endilega að veita meiri fjármuni í menntakerfið. Markmið heilbrigðisráðherra hlýtur sömuleiðis að vera góð heilsa almennings út langa ævi, en ekki endilega að verja sem mestu fé í heilbrigðiskerfið.

Því miður er algengt að til dæmis landbúnaðarráðherrar vinni fyrst og fremst að því að bæta hag bænda á kostnað neytenda og umhverfissjónarmiða og sjávarútvegsráðherrar vernda hagsmuni útgerða á kostnað almennings í landinu.

Hvað er til ráða?

Í þingræði eins og okkar er mikilvægt að ríkisstjórnir séu fjölskipað stjórnvald eins og til dæmis er í Svíþjóð. Það dregur úr möguleikum fagráðherra að taka sérhagsmuni fram yfir almannahag því fagráðherrar þurfa þá samþykki á ríkisstjórnarfundum í stað þess að geta afgreitt mál sjálfir í mismiklu og valkvæðu samráði. Þetta verndar fagráðherra fyrir þrýstingi og við þetta verða athafnir stjórnarráðsins betur samhæfðar.

Vissulega þarf að taka á stjórnarfarinu í nýrri stjórnarskrá en þar sem útlit er fyrir að það verði bið á því er brýnt að gera sem fyrst þá mikilvægu breytingu að ríkisstjórnin verði fjölskipað stjórnvald í reynd með samkomulagi á milli viðkomandi stjórnarflokka.

Til að breyta ríkisstjórn í fjölskipað stjórnvald ætti að duga að gera um það samkomulag eða sáttmála milli viðkomandi stjórnarflokka. Samkomulagið gengi út á að ráðherrar skuldbinda sig til að bera allar stærri ákvarðanir undir ríkisstjórn til samþykktar eða synjunar. Brot á því væri brot á stjórnarsáttmála og þar með gæti forsætisráðherra rofið þing.

Meginmálið

Ef núverandi ríkisstjórn vill halda í ráðherraræði í þágu sérhagsmuna þá hún um það.

Hins vegar ættu allir stjórnmálaflokkar að skoða þessi mál og lýsa því yfir fyrir næstu kosningar að þeir vilji miða við að næsta ríkisstjórn verði fjölskipað stjórnvald í þágu almennings. Þá myndi það væntanlega rata inn í næsta stjórnarsáttmála sem yrði veruleg framför í þágu almennings.