Í miðjum kóvíð­far­aldri fór fjár­mála­ráð­herra á lista­sýningu í Ás­mundar­sal. Ströngustu sótt­varna­lögum var ekki fylgt og allt sam­fé­lagið lagðist á hliðina. Rann­sóknar­blaða­menn sátu fyrir ráð­herra og á­hrifa­valdar kröfðust þess að hann segði af sér. Net­heimar loguðu eins og Berg­þórs­hvoll forðum.

Á dögunum fór þessi sami ráð­herra á­samt tveimur meðráð­herrum í annað partí í Kjósinni. Skúli at­hafna­maður Mogen­sen var að opna sjó­böð í Hvamms­vík þar sem fal­legt fólk getur lagst í heitt salt­vatn fyrir tæpar átta­þúsund krónur. Nýjasta æðið í túr­isma eru heitir pottar í fal­legu um­hverfi þar sem fólk getur legið með bjór­glas og tekið af sér „sjálfu“.

Skúli setti flug­fé­lagið WOW glæsi­lega á hausinn í árs­byrjun 2019. Fé­lagið var um­vafið skuldum eins og skrattinn skömmunum. At­vinnu­lífið á Suður­nesjum var slegið í rot og ríkis­sjóður tapaði milljörðum. Or­sakir gjald­þrotsins má rekja til ýmiss konar mis­taka í stjórn og rekstri þessa lág­gjalda­flug­fé­lags. Þar var aðal­lega við Skúla að sakast sem hagaði sér alltaf eins og sjálf­miðað barn í hlut­verka­leik.

Þessi saga þvældist þó ekkert fyrir Sjálf­stæðis­ráð­herrunum sem þar flat­möguðu í heitu sjávar­keri á­samt þotu­liðinu og drukku eðal­vín. Enginn blaða­maður spurði af hverju á­byrgðar­menn ríkis­sjóðs tækju þátt í slíkum fögnuði. Hvað varð um hug­tök eins og „pólitísk á­byrgð“, „sam­staða með kjós­endum“ og „arms­lengd frá at­vinnu­lífinu“? Er það virki­lega hlut­verk ráð­herra að hjálpa gjald­þrota auð­manni að aug­lýsa nýtt fyrir­tæki í ferða­manna­bransanum? Við skulum vona að böðin fari ekki sömu leið og vá-flugið sem brot­lenti þrátt fyrir lita­gleði, snobb og flott­heit. En þá verða Sjálf­stæðis­ráð­herrarnir væntan­lega komnir í annað bað.