Meðal at­hyglis­verðustu tíðinda liðinnar viku var sú frétt að um­hverfis­ráð­herra hefur nú frið­lýst vatna­svið Jökuls­ár á Fjöllum gegn allri orku­vinnslu í fram­tíðinni. Er á­kvörðun ráð­herra í fullu sam­ræmi við verndar­flokk nú­gildandi ramma­á­ætlunar og fyrsta frið­lýsingin sem ráðist er í á grund­velli á­ætlunarinnar.

Frið­lýsingin er mikið gleði­efni og er, að því er virðist, ó­um­deild. Enginn mót­mælir á­kvörðun ráð­herrans enda er hún í sam­ræmi við þá sátt sem ramma­á­ætlun var ætlað að skapa um vernd og orknýtingu náttúru­auð­linda Ís­lands. Undir­búningur ramma­á­ætlunar tók marga ára­tugi og það þóttu mikil tíma­mót þegar Al­þingi sam­þykkti hana 14. janúar 2013.

Ramma­á­ætlun er vand­lega unnin mála­miðlun. Sumir telja of marga kosti vera í nýtingar­flokknum á meðan öðrum þykir of langt gengið í verndar­flokknum. Úr verður sam­komu­lag um á­kveðin milli­veg. Það er mikil­vægt að heiðra slíkt sam­komu­lag en ekki bara hluta þess.

Í ramma­á­ætlun er ekki hægt að gera eins og með konfekt­kassann á jólum, að velja bara bestu molana úr og skilja þá eftir sem manni líkar ekki. Það verður ekki bæði sleppt og haldið við fram­kvæmd ramma­á­ætlunar.

Það er því enn gleði­legra fyrir þá sem standa að verk­efnum í nýtingar­flokki ramma­á­ætlunar, s.s. Vestur­Verk ehf. sem hyggur á byggingu Hvalár­virkjunar, að ráð­herra um­hverfis­mála skuli nú taka af skarið og fram­kvæma skörug­lega í sam­ræmi við ramma­á­ætlun. Hann hlýtur að með­höndla verk­efni í öðru flokkum á­ætlunarinnar með sama hætti og leggja sig fram um tefja ekki fram­gang þeirra.

Birna Lárus­dóttir
upp­lýsinga­full­trúi Vestur­Verks á Ísa­firði