Þeir sem tala fyrir fiskeldi í opnum sjókvíum við Ísland með norskum eldislaxi klifa gjarnan á því að við Ísland sé stuðst við ströngustu staðla í heimi þegar kemur að fiskeldi í opnum sjókvíum. Þetta eru eru enn og aftur orðin tóm miðað við reglugerðardrög frá sjávarútvegsráðherra sem eru nú til kynningar. Þessi drög gera ráð fyrir að sjókvíaeldisfyrirtækin fái að stunda sitt eldi hér við land með fimmtán sinnum meiri lús en móðurfélög þessara fyrirtækja fá að gera við Noreg. Hvernig í ósköpunum ætli það sé tilkomið? Hvað eru embættismennirnir sem skrifuðu þessi reglugerðadrög að hugsa? Er þetta með vitund og vilja ráðherra sem hefur það hlutverkum lögum samkvæmt að gefa út reglugerðina þegar þar að kemur?

Mun valda skaða
Löngu tímabært er að setja opinber mörk á leyfilega útbreiðslu lúsa á eldislaxi í opnum sjókvíum við Ísland. Drög sjávarútvegsráðherra hafa hins vegar velferð eldisdýranna að engu og munu beinlínis valda skaða á villtum laxa- og silungstofnum verði þau að veruleika.
Í Noregi er einn aðal mælikvarðinn á þá hættu sem villtum stofnum stafar af fiskeldi í opnum sjókvíum hversu mikið er af lús í eldinu. Þar er sett vikulegt hámark við 0,2 laxalýs á hvern eldisfisk á göngutíma seiða villtra stofna úr ám. Ef lús fer yfir þessi mörk á viðkomandi eldissvæði gera norskir eftirlitsaðilar kröfu um aðgerðir, ýmist eitrun eða þá að öllum eldisfiski skuli slátrað tafarlaust. Ef ekki næst stjórn á lúsafárinu þá er leyft framleiðslumagn á svæðinu lækkað. Um það gildir svokallað umferðaljósakerfi sem tekið var upp í Noregi nýlega. Í íslensku reglugerðardrögunum er miðað við að hámarkið verði þrjár lýs að meðaltali á hvern fisk, tvær vikur í röð!
Við tölvuna hér fyrir norðan get ég fylgst með vikulegum tölum um lúsatalningar á öllum eldissvæðum við Noreg á vefsvæðinu https://www.barentswatch.no/. Þar í landi er gerð krafa um opinbera birtingu þessara gagna í hverri viku, meðan reglugerðadrög okkar ráðherra gera aðeins ráð fyrir að fyrirtækin láti vita ef farið er yfir hin íslensku mörk tvær vikur í röð.

Leyfi til að ganga verr um
Rannsóknir hafa sýnt að ekki þurfa nema örfáar lýs að setjast á villt gönguseiði til að draga það til dauða. Í ljós hefur komið að á sumum svæðum í Noregi hefur lús úr eldi drepið meirihluta villtra gönguseiða á leið til sjávar. Af þessum ástæðum var þar komið upp umræddu umferðaljósakerfi.
Hér á landi hefur hingað til ekki verið sett neitt hámark á lús í opnu sjókvíaeldi, sem sýnir það skeytingaleysi sem stjórnvöld og sjókvíaeldisfyrirtækin hafa sýnt náttúru og lífríki Íslands. Fyrirtækin hafa farið sínu fram án þess að stjórnvöld hafi sett neinar reglur varðandi þetta mikilvæga atriði. Ákvæði laga og alþjóðasamninga um líffræðilegan fjölbreytileika og skyldu til að verja alla stofna laxfiska fyrir ílla ígrunduðum aðgerðum mannanna eru að engu höfð.
Sjókvíaeldi við Ísland er að langmestu leyti í eigu norskra stórfyrirtækja. Er ekki lágmark að þessi norsku fyrirtæki sem hér starfa gangi að minnsta kosti ekki verr um íslenska náttúru en þá norsku?

Höfundur er leiðsögumaður, sveitarstjórnarmaður og grunnskólakennari.