Þau stórtíðindi urðu í gær að Erla Bolladóttir gekk glöð út úr íslensku dómhúsi. Dómarinn sem dæmdi mál hennar lýsti því yfir í forsendum sínum að þegar á allt væri litið sé málum nú svo komið að hún verði að njóta vafans.
Hinn nýfallni dómur í máli Erlu leysir ekki fyrir okkur Geirfinnsmálið. En dómarinn sem kvað hann upp leitast þó við að rekja það sem aflaga hefur farið í þætti Erlu. Hann rekur álit réttarsálfræðinga sem allir nutu góðs af nema Erla og kallar þá niðurstöðu endurupptökunefndar óforsvaranlega. Hann telur nefndina heldur ekki hafa skýrt hvaða ástæðu Erla, Kristján Viðar og Sævar Marinó ættu að hafa haft til að koma sökum á aðra menn í því skyni að draga athyglina frá þeim sjálfum, fyrst þau áttu enga aðild að manndrápum yfir höfuð. Þá skapi óvissan um að Erla hafi nokkurn tíma verið á vettvangi ætlaðs glæps einnig vafa um að framburðir hennar og játningar í málinu hafi orðið til við eðlilegar kringumstæður. Þessu hafi verið slegið föstu um aðra í málinu.
Af þessum ástæðum meðal annarra telur dómurinn að ekki sé lengur ljóst hvort sakfelling hennar styðjist við næg sönnunargögn sem ekki verði véfengd með skynsamlegum rökum. Því hafi endurupptökunefnd borið að heimila endurupptöku á máli hennar.
Það hefur mörgum verið ráðgáta hvers vegna Erla var ein skilin eftir þegar mál dómþola í Guðmundar- og Geirfinnsmálum voru endurupptekin og allir voru sýknaðir, nema hún. En hvað sem þeirri og öðrum ráðgátum líður er þeim, sem legið hafa yfir þessum málum lengi, ljóst að málið stendur allt og fellur með Erlu. Verði ábyrgðinni á málinu lyft af hennar herðum er enginn eftir til að hengja hana á. Nema kerfið sjálft.
Er það kannski ástæðan?
Þáttur Erlu í málinu er svo samofinn þætti kerfisins í málinu að varla verður undið ofan af öðrum þeirra nema hinn hrynji til grunna. Hvaðan kemur sagan um Keflavíkurferðina, atburði í dráttarbrautinni og aðkomu Klúbbmanna? Hvernig varð hún til og hvað réði þróun hennar í meðförum rannsóknarmanna og vistmanna í Síðumúlafangelsi? 
Þótt svarið leynist líklega milli lína í gögnum málsins kallar dómarinn þetta ráðgátu sem hann skilur eftir fyrir ríkisstjórnina og ríkislögmann sem íhuga nú næstu skref.