Þann 17. maí sl. birtist grein í Fréttablaðinu eftir framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda (FA) undir heitinu „Ráð gegn innfluttri verðbólgu“ (sjá grein hér: https://www.frettabladid.is/skodun/rad-gegn-innfluttri-verdbolgu/). Sem fyrr er málflutningur framkvæmdastjórans fordæmalaus og má segja að lesendur þurfi nú eiginlega orðið ráð gegn málflutningi FA. Verða einstakar fullyrðingar framkvæmdastjóra félagsins hér gerðar að umtalsefni.

Verðlagseftirlit Alþýðusambandsins og verðhækkanir á matvöru

Í upphafi greinar sinnar vísar framkvæmdastjórinn til tæplega mánaðar gamallrar fréttar RÚV um fullyrðingar Verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um miklar hækkanir á matvöru. Framkvæmdastjórinn horfir hins vegar alveg fram hjá niðurlagsorðum hagfræðings ASÍ: „Við sjáum verð á matvöru aldrei lækka. Matvöruverslanir, hvort sem það eru verslanir eða heildsalar eða hverjir sem eru í þessari keðju, þá virðast þessi fyrirtæki vera að nýta hverja smugu sem að völ er á til að hækka verð.“ Er hagfræð­ingurinn ekki að tala hér til félagsmanna FA?

Það eru sannanlega ekki nýjar fréttir að verð á matvöru fari hækkandi. Sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Fyrst leiddu þær af áhrifum COVID-19 faraldursins en nú hefur innrás Rússlands í Úkraínu aukið enn á vandann, að viðbættum alþjóðlegum þvingunaraðgerðum. Þetta hefur leitt til mikils álags á virðiskeðjur og framleiðslulínur og mikilla verðhækkana á allri matvöru.

Á sama tíma vekur það furðu að m.a. félagar í Félagi atvinnurekenda greiða hærra verð fyrir tollkvóta á tímabilinu maí til ágúst í ár en næstu fjóra mánuði á undan. Sömu aðilar kvörtuðu fyrir tveimur mánuðum yfir að erfitt væri að fá þessar vörur og þær kostuðu meira en áður. Í því ljósi hefði verið eðlilegra að verð fyrir tollkvótana hefði lækkað.

Hver ættu viðbrögð stjórnvalda að vera?

Óhætt er að fullyrða að tillögur framkvæmdastjórans að lausn koma ekki á óvart – annars vegar að lækka tolla og hins vegar að úthluta tollkvótum án endurgjalds. Þessar tillögur eru í engu samræmi við viðbrögð stjórnvalda í löndum sem Ísland ber sig saman við. Ekki er það í fyrsta skipti.

Hér nægir að taka eitt dæmi: ESB telur stríðið í Úkraínu vera ógn við fæðuöryggi í Evrópu og leggur til aukna styrki til innlendrar landbúnaðarframleiðslu. Í Versala yfirlýsingu þjóðarleiðtoga ESB frá 10.-11. mars sl. er lögð áhersla á að tryggja fæðuöryggi og samþykkti framkvæmdastjórn ESB sérstakan 500 milljón evra „stuðningspakka“ fyrir evrópska bændur og heimilaði aðildarríkjum ESB að bæta við 1,5 milljörðum evra. Þannig leggur ESB ekki til t.d. breytingu tollkvótakerfis, heldur meiri stuðning við innlenda landbúnaðarframleiðslu. Óþarfi er að taka fram að félagsmenn FA bíða væntanlega í ofvæni eftir því að flytja þessar landbúnaðarvörur inn til Íslands – ætli sá innflutningur muni stuðla að „innfluttri verðbólgu“? Stjórnvöld ættu með öðrum orðum að senda bændum skýr skilaboð um mikilvægi innlendrar framleiðslu og tryggja rekstrarhæfi framleiðslueininga með auknum stuðningi líkt og gert er á meginlandi Evrópu.

Hverju hefur Samkeppniseftirlitið mælt með?

Í niðurlagi greinar sinnar tiltekur framkvæmdastjórinn að Samkeppniseftirlitið hafi mælt með því að úthluta tollkvótum án endurgjalds. Þetta er einkar áhugaverð fullyrðing enda myndi slík staðhæfing, ef rétt reynist, vera pólitísk yfirlýsing sem illa passar við hlutverk Samkeppniseftirlitsins.

Sem fyrr verður enn fremur að taka afstöðu Samkeppniseftirlitsins með fyrirvara enda er hér um að ræða stjórnvald sem lýtur öðrum reglum en samkeppnisyfirvöld ESB. Sá mismunur lýsir sér einkum í því að þegar misræmi er á milli landbúnaðarstefnu ESB, sem t.d. tollframkvæmd og tollkvótakerfi ESB byggja á, og samkeppnisreglna ESB, þá víkja samkeppnisreglur ESB. Þessu er ekki fyrir að fara hér á landi og ljóst að Samkeppnis­eftirlitið á Íslandi kemur fram með öðrum hætti gagnvart landbúnaði en samkeppnis­yfirvöld innan ESB.

Sammála um að vera ósammála

Það kemur því ekki á óvart að höfundur þessarar greinar er ekki sammála málflutningi framkvæmdastjóra FA.

Lausnin felst ekki í því að lækka tolla eða úthluta tollkvótum fyrir erlendar búvörur án endurgjalds eins og framkvæmdastjórinn leggur til. Lausnin næst með því að styðja við og styrkja framleiðslu innlendra landbúnaðarvara. Með þeim hætti er fæðuöryggi landsmanna tryggt, þjóðaröryggi aukið, byggð í sveitum landsins treyst, kolefnisfótspor lágmarkað, raunverulegum árangri náð í loftslagsmálum og svo mætti lengi telja.

Með auknum stuðningi við bændur yrðu því allnokkrar flugur í einu höggi slegnar.

Höfundur er verkefnisstjóri hjá Mjólkursamsölunni.