Senn hefur árásarstríð Rússa, eiginlega verður að segja Pútíns, staðið í eitt ár.

Eitt skelfingar- og hryllingsár fyrir úkraínsku þjóðina, eins reyndar fyrir ungmenni Rússlands, sem kvödd hafa verið, nauðug-viljug, til herþjónustu og árásarstríðs gegn bræðrum sínum og systrum, nágrönnum af sama slavneska kynstofninum, í öðru fyrrverandi sovétlýðveldi, til að hætta þar andlegu og líkamlegu atgervi sínu, lífi og limum, heill og framtíð, án þess að skilja, vel eða ekki, hvað er þar að gerast, af hverju og til hvers, enda vanti Rússland vart land.

Ekki er ástæða til að ætla, að mikill hluti rússnesku þjóðarinnar, hvað þá meirihluti, styðji þessa árás, alla vega ekki í hjarta sínu, gegn bræðra- og systraþjóð, því engin trúverðug eða gild rök eru fyrir henni, og hún hefur nú þegar krafizt dauða tugþúsunda rússneskra ungmenna og limlest enn fleiri, andlega eða líkamlega, nema hvoru tveggja sé, í blóma lífs síns, og þar með lagt líf og hamingju tugþúsunda fjölskyldna, hundraða þúsunda eða milljóna Rússa, í rúst.

Pútín sjálfur, einn og persónulega, er því ábyrgur hér. Án hans væri þetta hörmungarstríð, með skelfilegum, sárgrætilegum og mannskemmandi afleiðingum þess, ekki í gangi.

Rússneska þjóðin er ekki allt í einu orðin að illmennum, frekar en Þjóðverjar undir Hitler. Eitt ofstækisfullt, miskunnarlaust og valdagráðugt illmenni, haldið stórmennskubrjálæði, getur sefjað eða þröngvað heilli þjóð til ódæðis og illvirkja. Sá, sem á undan fór í austri, var Stalín.

Við skulum halda þessu til haga, þó að hörmungar, þjáning og písl úkraínsku þjóðarinnar og hryllingurinn, sem Pútín hefur á hana lagt, yfirgnæfi auðvitað alla þessa skelfingarmynd.

Evrópa hafði notið friðar í 75 ár. Evrópusambandið, ESB, var stofnað til að sameina Evrópu og sérstaklega til að tryggja frambúðarfrið í Evrópu. Árið 2012 fékk ESB friðarverðlaun Nóbels fyrir þessa viðleitni sína.

Samhliða hafði Atlantshafsbandalagið, NATO, verið stofnað, til að tryggja hernaðarlegar varnir Evrópu, reyndar Norður-Ameríku líka, mikið af sömu þjóðum og standa að ESB, auk Bandaríkjanna, BNA, og Kanada.

Árásarstríð Pútíns gegn Úkraínu var því mikið áfall fyrir aðildarríki ESB og NATO og varpaði dimmum skugga yfir alla Evrópu.

Þjóðverjar eru fólksflesta evrópska aðildarríki ESB og NATO, með 83 milljónir íbúa, og 4. mesta efnhags- og tækniveldi heims. Væntingar manna um styrk og stuðning Þjóðverja við Úkraínumenn hafa því verið miklar.

Hér verður fyrst að líta til stöðu Þýzkalands eftir seinni heimsstyrjöld. Í raun hersátu Fjórveldin Þýzkaland 1945-1955, voru þar með 400 þúsund manna her, til að halda þjóðinni niðri og hindra hernaðarlega uppbyggingu. Smám saman breyttist þessi staða svo úr undirokun og hörðu eftirliti í samvinnu og vináttu.

Enn þann dag í dag eru BNA þó með veigamikla hernaðarviðveru í Þýzklandi í formi miðstöðvar US Army Europe, US Air Forces og US Marine Corps Forces Europe og tuga þúsunda bandarískra hermanna, auk kjarnorkuvopna.

Þessi þunga hernaðarviðvera Bandaríkjanna í Þýzkalandi leiddi til þess, að Þjóðverjar töldu sig varða og öryggi sitt tryggt, og kusu því fremur, að verja fjármunum sínum til að endurreisa landið úr rústum stríðsins og byggja upp góða innviði, öflugan iðnað og sterkan efnahag, en nýjan hernaðarmátt.

Þjóðverjar vöknuðu þó af værum blundi, þegar Trump komst til valda í Bandaríkjunum og hótaði ekki aðeins að leggja niður herstöðvarnar í Þýzkalandi, heldur gaf hann líka í skyn, að sér kynni að hugnast, að ganga úr NATO og láta Evrópubúa sjálfa um varnir sínar og öryggi.

Endanlega hrukku svo Þjóðverjar upp með andfælum 24. febrúar í fyrra, við innrás Pútíns í Úkraínu. Þeir höfðu lengi haldið að tryggja mætti frið og vinsamleg tengsl við Rússland með mest mögulegum samskiptum og viðskiptum, gagnkvæmum hagsmunum, sem reyndist bábilja.

Staða þýzka hersins var því ekki upp á marga fiska, þegar Pútín reiddi til höggs í Úkraínu. Þetta var fyrsta vandamál Þjóðverja, hvað varðar hernaðarstuðning við Úkraínu. Þetta síðasta ár hafa Þjóðverjar þó, ásamt Bretum og Bandaríkjamönnum, stutt Úkraínu þjóða mest, hvað varðar verjur og vopn þeirra til varnar landinu.

Annað vandamál, og hér kem ég að hiki kanslara Þýzkalands, Olafs Scholz, var það, að hann vildi í lengstu lög forðast, að Þýzkaland drægist inn í nýtt stríð. Hryllingur þess síðasta situr enn fast í mönnum þar.

Þjóðverjar og aðrar vestrænar þjóðir höfðu stutt Úkraínu dyggilega með varnarvopnum. Með árásar- og sóknarvopnum, árásarskriðdrekum, hér Leopard 2, taldi Scholz og flestir evrópskir ráðamenn, líka Biden, að stuðningur kynni að breytast í þátttöku. Þar væri hárfínt bil á milli.

Scholz sagðist ógjarnan vilja stuðla að því, að þýzkir skriðdrekar mættu aftur rússneskum skriðdrekum á vígvellinum, þó undir stjórn Úkraínumanna væru, og, að þýzkir skriðdrekar myndu tortíma rússneskum mannslífum og vígvélum að nýju. Alla vega ekki upp á þýzkt eindæmi.

Hann sagði þó, að, ef Bandaríkin og aðrir samherjar myndu líka senda sína árásarskriðdreka til Úkraínu, þetta yrði samstillt og sameiginlegt átak ESB-/NATO-þjóða, þá myndi ekki standa á Þjóðverjum.

Það gerðist svo á dögunum, í löngu símtali Scholz og Biden, að þeir ákváðu að taka þetta skref, þó áhætta um stigmögnun og þátttöku fylgdi því, en án þess gæti Pútín, ofbeldið og lögleysið sigrað.

Þrátt fyrir gífurlega samúð og stuðning manna við Úkraínu, verður að telja, að hér hafi yfirvegun og skynsemi ráðið för.