Vinkona mín ein vann í mörg ár með sér eldri konu sem þótti hress með afbrigðum. Hún mætti til vinnu alla daga með bros á vör og það var sama hvað kom upp á – öllu var tekið með jafnaðargeði og leyst eins vel úr hlutum og hægt var. Við starfslok var hún spurð hvernig henni hefði tekist að vera svona létt og kát í gegnum árin og hún svaraði að þetta hefði einfaldlega verið ákvörðun sem hún tók. Hún hefði semsagt komist að þeirri niðurstöðu um miðjan aldur að henni þætti hún sjálf hvorki nógu jákvæð né skemmtileg og ákvað að taka málin í sínar hendur. Hún gat einfaldlega ekki hugsað sér að verða þannig gamalmenni að afkomendur hennar stæðu fyrir utan húsið hennar með kvíðahnút í maga og þyrftu að telja í sig kjark til að hringja bjöllunni þegar þau kæmu í enn eina skylduheimsóknina.

Auðvitað er lífið ekki alltaf dans á rósum og við göngum öll í gegnum erfið tímabil. Mér verður hins vegar oft hugsað til þessarar konu því það er nefnilega ákvörðun hvernig við mætum hverjum degi og því sem lífið býður upp á. Það skal þó strax sagt að ég kemst ekki með tærnar þar sem þessi góða kona er með hælana – get verið eins og þrumuský og pestin ein, ef marka má aðra fjölskyldumeðlimi og nána samferðamenn. En mig langar hins vegar til að feta svipaða slóð og þessi góða kona og verða örlítið betri í dag en í gær og enda sem eldhresst gamalmenni ef Guð lofar.

Þegar ég halla aftur augunum sé ég mig alveg sem eina af skemmtilegustu ömmunum á Grund með púrtvín í glasi og Abba á fóninum – úðandi jákvæðni í allar áttir. En ég á fjári langt í land og því ekki seinna vænna en að hefjast handa.