Það var virkilega huggulegt að fá Þorvald Gylfason aftur á sjónvarpsskjáinn til að ræða stjórnarskrármál í fréttum Stöðvar 2 þann 20. maí sl. Maðurinn er jú hagfræðiprófessor og þá væntanlega sprenglærður í lögum og því sem viðkemur stjórnarskrá.

Ég ætla að vona að ég hafi fengið alveg eins kjörseðil og Þorvaldur fékk í þessu ráðgefandi þjóðaratkvæðu um tillögur stjórnlagaráðs sem hann hefur verið ötull við að minna á í rúmlega sjö ár.
Á mínum kjörseðli var ég ekki spurður að því hvort ég vildi að tillögur stjórnlagaráðs yrðu óbreyttar og orðréttar að nýrri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Heldur var ég spurður hvort ég vildi að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Neðst á kjörseðlinum var svo eftirfarandi texti sem lýsti þinglegri meðferð stjórnarskrárbreytinga:

“Stjórnarskrá er breytt þannig að frumvarp er lagt fram á Alþingi. Það er rætt við þrjár umræður og getur tekið breytingum í meðförum þingsins. Verði frumvarpið samþykkt skal rjúfa Alþingi og kjósa nýtt meðferð sem lýst hefur verið.þing. Frumvarpið er þá lagt fram að nýju og samþykki Alþingi það óbreytt taka breytingarnar gildi að fenginni staðfestingu forseta. Stjórnlagaráð hefur skilað Alþingi tillögum að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Verði það lagt fram sem frumvarp á Alþingi fær það þá meðferð sem lýst hefur verið.”

Það hlýtur eitthvað annað að hafa staðið á kjörseðli Þorvaldar því hann hefur frá þessum kosningum talað líkt og fyrri kosturinn hafi verið í boði á sínum seðli. Alla vega neita ég að trúa því að hann hafi lesið fyrri kostinn út úr fyrstu spurningunni, hafi hann fengið alveg eins kjörseðil og ég. Ef svo er þá stappar það nærri heimsmeti í valkvæðum lesskilningi.

Hvað spurninguna um auðlindaákvæðið varðar, þá var eingöngu spurt “Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?” Ekki var spurt hvort tillaga stjórnlagaráðs um auðlindaákvæði ætti að standa óbreytt og orðrétt í nýrri stjórnarskrá. Hafi Þorvaldur, með nákvæmlega eins kjörseðil og ég, lesið það úr spurningunni að tillaga stjórnlagaráðs um auðlindaákvæði í stæði óbreytt og orðrétt í nýrri stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, færist hann enn nær áðurnefndu heimsmeti og jafnvel bætir það.

Hvað þinglega meðferð málsins varðar, þá var aldrei meirihluti fyrir því í þinginu að tillögur stjórnlagaráðs færu óbreyttar í gegn. Þrátt fyrir útskýringar um þinglega meðferð á kjörseðli í áðurnefndu þjóðaratkvæði, var það á pari við mannsmorð að leggja til breytingar, smáar sem stórar, á tillögum stjórnlagaráðs.

Menn geta mér að meinalausu vitnað til tölvupósta sem sendir voru á þingmenn og þeir spurðir hvort þeir myndu styðja tillögur stjórnlagaráðs. Hafi menn búist við einhverju öðru en já frá þáverandi stjórnarþingmönnum, jafnvel þó þeir myndu ekki styðja tillögurnar, þá hafa menn alls ekki lesið salinn rétt.

Fyndnasta við þetta allt saman var nú samt það, að lagt var upp í þessa ævintýralegu óvissuferð að undirlagi og forskrift Framsóknarflokks Sigmundar Davíðs !