Hagkerfið og loftslagið eru ekki svo ólík kerfi, bæði óhemjuflókin og háð samspili ótalmargra breyta. Flækjustigið gerir sérfræðingum á hvoru sviði erfitt fyrir að spá nákvæmlega um hver útkoman verður. Þeir reyna eftir fremsta megni að leggja mat á næmni hvers þáttar gagnvart öðrum en matið nær aldrei að fanga samspilið í heild sinni sem er einnig háð aðstæðum hverju sinni.

Grundvallarlögmálin eru þó talin liggja fyrir. Að öðru óbreyttu mun aukning peningamagns í umferð hækka verðlag og eins hækkar hitastigið ef kolefnislosun eykst. Hagfræðingar og loftslagsvísindamenn hafa í sjálfu sér ekki áhyggjur af aukningunni heldur því að allt fari úr böndunum ef aukningin er of hröð. Jákvætt endurkast, það er þegar tvær breytur magna hvor aðra upp, er þekkt fyrirbæri í báðum greinum.

Þegar íslenska hagkerfið gengur í gegnum samdrátt sem á sér enga hliðstæðu í hagsögu samtímans er nauðsynlegt að bæði ríkisstjórnin og Seðlabankinn stígi inn af fullum þunga. Um það deila fáir. Yfirvöld sem fara með hagstjórn eru hins vegar undir miklum þrýstingi og þá er tilhneigingin oft sú að gefa of lausan tauminn. Ríkisstjórnin keppist við að friða sem flesta með fjárútlátum fyrir kosningar og fjármálamarkaðurinn kallar eftir því að Seðlabankinn beiti magnbundinni íhlutun, það er uppkaupum á ríkisskuldabréfum, af fullum krafti til þess að fjármagna halla ríkissjóðs og halda niðri vöxtum á markaði.

Ekki er úr vegi að rifja upp ummæli seðlabankastjóra vorið 2013, þá dósents við Háskóla Íslands, á málstofu sem Seðlabankinn stóð fyrir: „Allar óðaverðbólgur stafa af miklum fjárlagahalla sem er fjármagnaður með seðlaprentun.“ Þessari upprifjun er ekki ætlað að gefa í skyn að óðaverðbólga sé á næsta leiti. Áður en prentvélarnar fara á yfirsnúning er þó kannski rétt að staldra aðeins við.

Magnbundin íhlutun er nýtt hagstjórnartæki hér á landi og verður notuð í hagkerfi sem er enn að laga sig að nýjum veruleika lágra vaxta. Eins og stjórnendur Seðlabankans hafa ítrekað að undanförnu þá gilda ekki alltaf sömu lögmál í peningamálum á Íslandi annars vegar og á nálægum myntsvæðum hins vegar.

Af þessum ástæðum var hughreystandi að heyra varúðarsjónarmið Gunnars Jakobssonar, varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika, á Peningamálafundi sem Viðskiptaráð Íslands stóð fyrir í síðustu viku. Gunnar sagði að Seðlabanki Íslands yrði að hafa það í huga að erfitt gæti reynst að vinda ofan af magnbundinni íhlutun þegar að því kemur. Á ótroðnum slóðum getur fyrirhyggja reynst dýrmæt.