Það er ekki hægt að mynda nýja ríkisstjórn í landinu fyrr en úrslit kosninganna liggja fyrir og ljóst er hvernig nýtt Alþingi verður skipað. Það er ekki hægt að kalla Alþingi saman fyrr en undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar hefur ákveðið hvað hún muni leggja til. Þegar það liggur fyrir er hægt að setja þing, en þó ekki fyrr en fjárlagafrumvarp næsta árs er tilbúið til framlagningar, enda ávallt fyrsta þingmál hvers þings eins og stjórnarskráin mælir fyrir um. Hins vegar liggur ekki fyrir hver verður fjármálaráðherra í ríkisstjórn þessa kjörtímabils, enda hefur hún ekki verið skipuð þar sem ekki liggur fyrir hvernig alþingiskosningarnar fóru.

Starfandi forseti Alþingis hefur gefið í skyn að mögulega verði unnt að setja þing í næstu viku til að staðfesta kjörbréf þingmanna en þá þurfa bæði forsætisráðherra og samgöngumálaráðherra hins vegar að taka sér hlé frá stjórnarmyndunarviðræðum því Katrín Jakobsdóttir þarf að bjarga mannkyninu á loftslagsráðstefnu í Glasgow og Sigurður Ingi Jóhannsson þarf að vera á Norðurlandaráðsþingi í Kaupmannahöfn. Þar er reyndar líka gert ráð fyrir íslenskri þingnefnd, en þar sem enginn veit hvort Alþingi er rétt skipað hefur heldur ekki gefist kostur á að skipa þingmenn í Íslandsdeild Norðurlandaráðs.

Framangreind lýsing á stöðu íslenskra stjórnmála stiklar aðeins á þeim praktísku vandamálum sem nú þegar eru upp komin eins og bjartsýnustu menn myndu lýsa þeim. Þau hljóta að teljast barnaleikur í samanburði við veruleikann sem blasa mun við ef Alþingi verður sett til þess eins að lýsa frati á farsann í Borgarnesi og boða uppkosningu í kjördæminu. Verði sú raunin verður þing ekki sett á meðan, ný ríkisstjórn ekki mynduð og ekkert fjárlagafrumvarp lagt fram, sem þó þarf að samþykkja fyrir áramót til að unnt verði að greiða laun þeirra tugþúsunda sem vinna hjá ríkinu. Og enn erum við einungis að tala um praktísk vandamál og ekki þá mynd sem blasir við af stöðu lýðræðisins í landinu.

Þær raddir hafa heyrst að seta í kjörstjórn sé þegnskylda og sýna verði þeim skilning sem taka hana að sér. Það hangir hins vegar ýmislegt á spýtunni þegar um lýðræðið er að tefla eins og hér hefur verið rakið. Fólkið sem ber ábyrgð á framkvæmd kosninga hlýtur og verður að gera sér grein fyrir því en taka afleiðingunum ella