Í vikunni fengu foreldrar í Reykjavík póst um innritun í leikskóla næsta haust. Fjölmiðlar hafa undanfarna daga og vikur sagt sögur af þessu fólki. Fólki sem hefur skráð sig aftur í nám, flutt heim og jafnvel þurft að hætta í vinnunni sinni, því það hefur ekki vistun fyrir barnið sitt. Sumir fengu ekki pláss síðasta haust, þrátt fyrir loforð um inntöku við 12 mánaða aldur, og sjá jafnvel ekki heldur fram á að fá leikskólapláss í haust fyrir barnið sitt.
Þetta er algert neyðarástand og þó svo að ég tali hér um Reykjavík, þá á þetta ekki bara við þar. Í nágrannasveitarfélögum hefur verið farin sú leið að greiða fólki heimgreiðslur á meðan það bíður. Það vill Sjálfstæðisflokkurinn líka gera í Reykjavík en von er á tillögum frá honum vegna þess vanda sem blasir við.
En vandinn er ekki bara í innrituninni. Hann er líka hjá þeim börnum sem þegar eru innrituð en eru á flakki og eru ítrekað send heim. Vegna myglu og manneklu.
Ég er ekki eitt þessara foreldra sem bíða eftir plássi en ég fékk samt póst fyrir viku þar sem kom fram að viðgerðir í leikskóla barnsins míns síðustu vikur myndu ekki duga og að það þyrfti að ráðast í viðameiri aðgerðir. Þær krefjast þess að húsið verði tæmt og starfsemin flutt annað. Nú er verið að leita að húsnæði.
Með póstinum fylgdi að ekki yrðu tekin fleiri börn inn í leikskólann næsta haust. Þetta er mín saga.
Svo er það systir mín. Leikskóla dóttur hennar var lokað og hún þarf nú að keyra með hana hvern morgun í annað hverfi. Því húsnæðið sem leikskólinn var í var svo myglað.
Þetta eru auðvitað engin einsdæmi. Þessa sögu hef ég heyrt frá mörgum og þið eflaust líka. Fólki sem býr í alls konar hverfum og ýmsum sveitarfélögum. Á einum stað var meira að segja kúkaloft í leikskólanum og þess vegna þurfti að færa börnin annað. Kúkaloft.
Og gleymum svo ekki fólkinu sem fær reglulega pósta frá leikskólanum um manneklu, eða fáliðunarstefnu, og þarf að sækja barnið snemma.
Ég veit að það eru ástæður fyrir vandanum sem voru ófyrirséðar. Stríð og heimsfaraldur. Svo er það viðhaldið og myglan. Sem er samt kannski alveg eitthvað sem hefði átt að vera fyrirséð, en er alveg týpísk afleiðing „þetta reddast“ hugarfars okkar Íslendinga.
Það voru mótmæli í gær í Ráðhúsinu. Það voru mótmæli í Ráðhúsinu í haust. Þetta er endurtekið efni og svo við getum komið í veg fyrir aðra endurtekningu þá væri ég til í að sjá nýjar lausnir. Það er ekki bara þörf núna, það er alger nauðsyn.