Þvert á ráðleggingar Njáls heitins á Bergþórshvoli ætla ég að höggva í sama loftslagsknérunn. Læt samt ESB liggja milli hluta þar sem öllu má nú ofgera.

Betur má ef duga skal en að flokka pappír og plast og náttúrunni verður tæpast bjargað nema tannhjól tískunnar, knúin hégóma og barnaþrælkun, verði stöðvuð.

Ósonlagið var ekki götótt þegar Oscar Wilde benti á að tískan er svo ógeðsleg að við þurfum að breyta henni á sex mánaða fresti. Hún getur því aldrei orðið sjálfbær.

Skýtur samt svolítið skökku við að þeir sem helst vilja halda áfram að kynda undir hnettinum eru blæbrigðalausir jakkafatakarlar sem kunna jafnvel ekki að hnýta á sig bindi án þess að það verði þeim fjötur um fót.

Samviska mín er ekki hvítþvegin í þessum efnum en ég hugga mig þó við að ég kaupi mér ekki föt nema í algerri neyð. Þarf til dæmis að fara að kaupa mér nýja gallabuxur þar sem það er farið að sjást í aðra rasskinnina eftir sjö ár.

Stoltastur er ég samt af svarta Perfecto-leðurjakkanum mínum sem hefur haldið á mér hita og varið sjálfsmynd mína í 30 ár! Einhver kolefnisjafnaðasta flík sem sögur fara af og hann gaf sko ekki líf sitt til einskis tuddinn sem lagði til í hann leðrið.

Sniðið er rúmlega 100 ára sem gerir hann auðvitað klassískan. Enda einkennisbúningur uppreisnarfólks og töffara í rúm 50 ár. Allt frá Marlon Brando til Kate Moss.

Fólk sem passar í sömu flíkurnar árum saman neyðist til að hreyfa sig og gæta hófs í mat og drykk þannig að það er hollt, umhverfisvænt og göfugt að hafna tískunni.

Og í tilfelli Perfecto fyrst og fremst töff enda hentugt að hafa uppreisnarandann saumaðan í fóðrið þegar alvöru lífsstílsbylting er úrslitakosturinn.