Lengi hefur verið talið að félagsskapur geti skilið milli feigs og ófeigs. Þannig sé það vís leið til glötunar fyrir börn og ungmenni að lenda í vondum félagsskap.

Á unglingsárum undirritaðrar voru það einkum og sér í lagi svartklæddir leðurtöffarar sem taldir voru varða veg barna og unglinga til glötunar. Sjálfur sölumaður dauðans birtist börnum sem svartur skuggi í síðri leðurkápu í áróðursauglýsingum um fíkniefnalaust Ísland. Áhyggjufullar mæður brýndu fyrir börnum sínum að verða ekki á vegi slíkra vera, sem ýmist voru kallaðar pönkarar eða dópistar, oftast án ítarlegrar rannsóknar.

Þessir fordómar eru ekki séríslenskt fyrirbæri en á áttunda og níunda áratugnum gekk yfir bylgja ótta við djöfladýrkun. Morðrannsóknir gengu út á að finna tengsl við slík trúarbrögð og aðra andfélagslega og anarkíska hegðun og voru saklausir unglingar bæði hér á Íslandi og annars staðar í heiminum dæmdir fyrir slík morð.

Það er verðugt rannsóknarefni fyrir félags- og mannfræðinga að skoða hvernig fordómar af þessu tagi verða til, því á sama tíma og viðvaranir við leðurfólki voru sem háværastar voru börn hvött sérstaklega til þátttöku í kirkjustarfi og samneytis við presta, og til íþróttastarfs, sem lengi hefur verið talin ein albesta leiðin til farsællar barnæsku.

Ekki þarf að fjölyrða um ógeðslegar uppljóstranir undanfarinna ára af meðferð presta á börnum og löngu ljóst að um alþjóðlega plágu er að ræða. Síðast í gær lýsti þolandi í Hjalt­eyrar­málinu þeirri skoðun að draga þyrfti presta til ábyrgðar vegna sinna þjáninga.

Þá hafa menn, sem treyst hefur verið fyrir ungu íþróttafólki, verið dregnir til ábyrgðar fyrir hroðalega glæpi gegn skjólstæðingum sínum. Nægir að nefna frægan fimleikaþjálfara í Bandaríkjunum og íslenskan bocciaþjálfara sem dæmdur var í margra ára fangelsi fyrir ítrekaðar nauðganir.

Nýbirtar lýsingar á samskiptum framámanna innan íslensku íþróttahreyfingarinnar minna einna helst á dramatíska fréttaskýringu úr undirheimunum, þar sem skiptast á lýsingar á ofbeldisverkum og valdabaráttu glæpaklíka. Þótt flestum kunni að þykja of djúpt í árinni tekið að halda því fram að þátttaka í íþróttastarfi sé börnum beinlínis hættuleg, þarf hreyfingin sannarlega að hafa í huga hvað hún er með í höndunum. Orðsporið er viðkvæmt. Líkt og börnin, á íþróttahreyfingin nú valið og spurningin er aðeins hvora fyrirmyndina hún kýs, pönkarann eða prestinn.