Það hefur frést að veiðar á villtum pöndum séu hafnar á ný í Kína, þar sem þær eru ekki lengur í út­rýmingar­hættu. Veiðarnar hafa skapað nokkra reiði og úlf­úð, ekki hvað síst fyrir þær sakir að þær eru að­eins stundaðar af auð­manninum Kang Liu. En Liu hafði látið af veiðum eftir að stofninum var nánast út­rýmt og veiðarnar bannaðar. Þrátt fyrir að eftir­spurn eftir pöndu­kjöti sé sama og engin er engan bil­bug á Liu að finna. Til veiða skal haldið þó að borga þurfi með veiðunum auk þess sem hann hafði varð­veitt veiðar­færi með miklum til­kostnaði frá veiði­banni.

Fjöl­margir í Kína hafa bent á að veiðar sem þessar skili nánast engu til þjóð­fé­lagsins og þær skaði aðra hags­muni veru­lega. Þó að stofnar pöndunnar séu ekki lengur í út­rýmingar­hættu séu þær í huga heimsins orðnar að tákni fyrir náttúru­vernd. Að­eins sé tíma­spurs­mál hve­nær grimmi­legar og kvala­fullar veiði­að­ferðir veki heims­at­hygli. Tals­menn nýrra vaxandi at­vinnu­greina sem gert hafa út á verndun risa­pöndunnar um allt Kína hafa mót­mælt veiðunum harð­lega.

Í­mynd er ein dýr­mætasta eign hverrar þjóðar. Í­mynd Ís­lands er sterk, við erum frið­söm þjóð, her­laus, við höfum aldrei ráðist á annað ríki, búum yfir hreinni orku, virðing fyrir náttúru er vaxandi og við látum aldrei skil­greina okkur sem smá­ríki.

Að við skulum heimila einum manni að veiða hvali er jafn galið fyrir heiminum og þetta skáldaða dæmi um kín­verska auð­manninn hér að ofan og það mun valda okkur veru­legum skaða í fram­tíð. Stjórn­völd eiga því að sinna hlut­verki sínu við verndun hags­muna okkar sem hér búa og banna hval­veiðar í eitt skipti fyrir öll. Með friðun hvala græðum við öll.