Um helgina fór fram Pollamótið á Akureyri. Knattspyrnumót þar sem iðkendur hvaðanæva af landinu koma saman og iðka þá göfugu íþrótt. Stórir og litlir, leiknir og styttra komnir, saman á vellinum í sátt og samlyndi. Kannski ekki aðalatriðið að vinna – en gleðina og fjörglauminn má aldrei vanta. Hlegið að klaufagangi, hlustað á speki og dáðst að töktum.

Ef einhver fer fram úr sér, skiptir snöggt skapi, fer óðslega í tæklingu eða gerir lítið úr mótherja, eru nærstaddir fljótir að skipta sér af. Sé ekki talað um ef áhorfendur fara að haga sér dýrslega. Þá er gripið snögglega í handbremsuna. Skilaboðin eru skýr; svona gerum við ekki, hér erum við saman í gleði, sátt og samlyndi. Annað ekki í boði.

Svo er það þetta með sigurvegarana – það fer jafnan ekki hátt hverjir sigra eða jafnvel lyfta bikar við lok mótsins. Miklu frekar er hásininni, liðböndunum og krossböndunum þakkað þolgæði og úthald við lok hvers leiks. Hugsað til þeirra sem ekki voru svo lánsamir og eru rétt í þessu að gúggla nafnið Brynjólfur, læknir, krossbandaaðgerð.

Margir þessara keppenda og áhorfenda eru líka hluti af öðru móti, N1 mótinu, sem foreldrar og forráðamenn ungra drengja í 5. flokki. Þar eru auðvitað langflestir í framúrskarandi gír. Nú berast samt fréttir af því að þar hafi verið, á stundum, dálítið bröndóttar og leiðinlegar uppákomur. Það er alfarið á ábyrgð sárafárra foreldra. Vandamálið ætti að vera fljótafgreitt með skilaboðum Pollamótsins; svona gerum við ekki, hér erum við saman í gleði, sátt og samlyndi. Annað ekki í boði.