Traustið er það mikil­vægasta í lífi og starfi stjórn­mála­manns. Hann þarf að njóta trausts. Án þess hefur hann ekkert erindi í pólitík.

Á­líka gildir um fram­boðs­lista stjórn­mála­flokkanna fyrir kosningar. Þar skiptir trú­verðug­leikinn mestu máli, en hann er meðal annars mældur á vogar­skálum sam­stöðu, á­byrgðar og stefnu­festu.

Og það er ein­mitt í sveitar­stjórnar­kosningum, eins og þeim sem núna fara í hönd, sem þessi at­riði skipta sköpum. Kjós­endur velja þar fólk sem þeir treysta til að fara vel með völd sín, svo og fram­boðs­lista sem eru settir saman af hæfum og sam­stíga sam­herjum sem geta unnið með sóma þau um­bóta­störf sem fram undan eru.

Það er lík­lega í þessu ljósi sem fylgið hrynur af Sjálf­stæðis­flokknum í Reykja­vík eins og endur­teknar skoðana­kannanir gefa til kynna. Sá pólitíski land­skjálfti sem leikur um hann verður ekki skýrður út með því einu að lands­málin leiki hann grátt. Það sýnir og sannar staða hans í öðrum sveitar­fé­lögum landsins, svo sem í Hafnar­firði þar sem flokkurinn heldur sínu eftir átta ára valda­tíð.

Vandi Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík er einkum og sér í lagi þrí­þættur. Listi flokksins er settur saman af fólki sem talar út og suður í sinni pólitík, en klofningur innan flokksins er orðinn að við­varandi vanda­máli innan hans raða. Í annan stað endur­óma niður­rifs­raddirnar innan úr innstu kimum flokksins í huga alls al­mennings, en lykil­menn úr röðum hans hafa aldrei getað á heilum sér tekið eftir að vinstri­menn hrifsuðu af þeim völdin og hófu að stunda sam­ráð­s­pólitík sem er eitur í beinum í­halds­samra aftur­halds­seggja. Og í þriðja lagi hefur hinn nýi leið­togi flokksins í Reykja­vík ekki staðið undir þeim væntingum sem til hans voru gerðar, en hann virðist bein­línis vera horn­reka í flokknum og er meira að segja ó­víst að hann njóti stuðnings flokks­for­ystunnar.

Þá verður ekki hjá því litið að sama manneskja, sem starfað hefur sem borgar­full­trúi á kjör­tíma­bilinu sem senn er að baki, hefur ekki mætt til vinnu sinnar svo mánuðum skiptir. Skýringin á því er auka­at­riði þegar haft er í huga að ekkert fer senni­lega meira í taugarnar á ís­lenskri þjóð en að hirða laun fyrir ó­unna vinnu. Um aldir hafa Ís­lendingar mælt iðju­semi sína í við­veru á vinnu­stað. Og þar hefur engin breyting orðið á þótt heims­far­aldur með heima­vinnu hafi skekið þjóð­lífið um stund.