Ég er ekki viss um að það sé hægt að halda því fram að á Íslandi logi miklir pólitískir eldar, ef nokkrir. Jarðeldar loga, en ekki pólitískar logar. Ekki fer mikið fyrir steyttum hnefum hugsjónanna eða innblásnum ræðuhöldum um grunngildi og stefnur. Þetta segi ég ekki til að býsnast. Ég andvarpa ekki, líkt og ég sakni þess að flokkar takist á og stjórnmálafólk efni til orðaskaks í sjónvarpssölum. Mér finnst skortur skaksins mun frekar vera áhugavert einkenni á samtímanum, lýsandi fyrir ástand sem hefur varað um nokkurt skeið, en gæti þó orðið viðsjárvert til lengdar. Í pólitíkinni, fyrir utan veiruvarnamál, er varla neitt á dagskrá. Svo ég tali eins og jarðvísindamaður: Annað hvort er það tímabundið ástand, sem getur breyst mjög snögglega, eða ástand sem á eftir að standa yfir mjög lengi og lýsir varanlegri veruleika.

Nú er svo komið, að þó svo kosningar til Alþingis séu eftir hálft ár, finnst mér ákaflega erfitt að spá fyrir um það hver helstu kosningamálin verða. Mér finnst það merkileg tilfinning. Nú er það ekki svo, að á Íslandi skorti úrlausnar- og álitaefni og að hér séu ekki vandamál. Þau eru fjölmörg og víða kreppir að. Flest þessara mála eru hins vegar búin að vera þrætuefni svo lengi að ákaflega margir eru fyrir löngu búnir að missa þráðinn. Höfuðeinkenni á íslenskri pólitík er þóf. Mál eru þæfð, þangað til fáir nenna eða geta staðið í því að ræða þau mikið lengur. Á að breyta kvótakerfinu, auka fé til heilbrigðismála, umbylta landbúnaðarkerfinu, fá nýja stjórnarskrá, færa flugvöllinn, selja áfengi í matvöruverslunum, samþykkja nýja rammaáætlun, efla nýsköpun, sameina sveitarfélög, jafna atkvæðisrétt, taka upp nýjan gjaldmiðil, friða hálendið eða ganga í Evrópusambandið?

Það er ekki gott að segja. Manni virðist jú óhætt að treysta því að stór og smá mál af þessu tagi muni bera á góma í næstu kosningum — þó það nú væri — en á sama tíma virðist æði líklegt að um þau verði deilt með hálfum huga og án teljandi álags á hjarta- og æðakerfið. Tíminn fram að kosningum gæti orðið eftirminnilegur gósentími afdráttarleysis. Afsakið hlé er orðið að sigurstranglegri taktík í pólitík. Að æsa sig þykir almennt litlu skila. Um flest stór mál hefur verið rifist í eldhúspartíum í hálfa öld og lítið ber á niðurstöðum. Fingrabendingar og gífuryrði til einskis. Það er skiljanlegt að af fólki sé dregið. Ekki bætir úr skák, að nú í rúmt ár hefur verið um fátt annað talað en tiltekinn veirufaraldur og umræðan hefur hverfst um minnisblöð sóttvarnalæknis, án þess að mikið annað hafi komist að. Ef allt færi á versta veg og andleysið yrði algjört myndu kosningarnar í haust snúast um svoleiðis minnisblað, sem væri spes. Vonandi verður vírusinn að baki. En þá blasir spurningin við: Hvað svo?

Án efa er til fólk sem upplifir tímana öðruvísi og sér loga í hugsjónaglæðum, en skoðum samt staðreyndirnar. Hálft ár er í kosningar og þjóðin hefur gengið í gegnum, ásamt heimsbyggðinni allri, einhverjar dýpstu efnahagsþrengingar og róttækustu inngrip í daglegt líf sem um getur. Ég hef ekki orðið var við neinn urmul af Zoom-fundum eða málþingum á vegum stjórnmálaflokka um það hvert stefna skuli, svona almennt, með íslenska þjóð í framhaldinu. Kannski er það skiljanlegt. Hefði einhver mætt?

Ég held ekki að pólitík sé dáin, en hún hefur breyst. Ákafinn er minni. Það getur verið ágætt, en líka varhugavert. Andvaraleysi er ekki ákjósanlegt í lýðræðissamfélagi, þótt sátt sé æskileg og friður. Á Alþingi, ásamt bollaleggingum um minnisblöð, er verið að spá í hvort óhætt sé að Evrópusambandið verði rætt aftur. Umræðan snýst mestmegnis um það hvort málið sé enn á dagskrá eða hvort það hafi verið tekið af dagskrá árið 2014. Umræðan um Evrópusambandið er því mestmegnis umræða um umræðu um Evrópusambandið. Ég skil vel að fáir finni hitann brenna. Þetta er hins vegar miður, því hér er — ásamt öllum hinum óútkljáðu málunum — um mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir allan almenning, sem gott væri að skera úr um.

Kannski stendur það upp á okkur kjósendur að blása lífi í glæðurnar. Hlusta betur. Standa upp úr sófanum. Fussa yfir fréttum. Tala. Ég bíð spenntur eftir stefnu flokkanna í umhverfis- og loftslagsmálum. Róttækra breytinga er þörf til að laga þjóðfélagið að stærstu ógn sem steðjað hefur að mannkyninu. Ég ætla að lúslesa stefnurnar í þessum efnum, gott ef ekki prenta þær út og hafa á náttborðinu. Kannski jafnvel fíra upp í einni góðri deilu í eldhúspartíi (eða á Zoom).

Lýðræðið er ekki bara kosningar á nokkurra ára fresti. Lýðræðið er lífsstíll.