Í meira en aldarfjórðung voru málverk eftir listamanninn Werner Jensen seld í galleríi í Osló. Verkin voru geysivinsæl og greiddu listunnendur allt að 750.000 íslenskra króna fyrir þau. Samkvæmt ferilskrá Jensen hafði hann haldið málverkasýningar í virtum sýningarsölum um heim allan. Olíumálverk hans héngu á veggjum stórfyrirtækja og hann var búsettur í Berlín. Einn hængur var þó á. Werner Jensen var ekki til.

Þegar lögregla heimsótti galleríið í ágúst 2020 kom í ljós að eigandi þess hafði sjálfur málað myndirnar. Norska lögreglan sakaði galleríeigandann um fjársvik. „Werner Jensen er uppskálduð manneskja og er ekki til í alvörunni,“ sagði talsmaður lögreglu. Tvö hundruð málverk eftir Werner Jensen voru gerð upptæk.

Galleríeigandinn var ósáttur. Hann viðurkenndi að æviágrip og afrekaskrá Werners Jensen væru skáldskapur. Hann þvertók þó fyrir að um svik væri að ræða og sagði nafnið listamannsnafn eða dulnefni.

Orð og athafnir

Leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi á í tilvistarkreppu. „Of margir kjósendur hafa ekki hugmynd um hver Keir Starmer er,“ skrifaði flokksfélagi hans í blaðagrein í vikunni. Hann sagði ímyndarkrísu leiðtogans, sem legið er á hálsi fyrir að vera litlaus, vera upp á pólitískt líf og dauða. „Hann þarf að skilgreina sjálfan sig áður en andstæðingar hans gera það.“

Leiðtogi Verkamannaflokksins er ekki sá eini sem glímir við pólitíska tilvistarkreppu. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun Gallup hefur fylgi Vinstri grænna ekki verið minna síðan 2013. Vinstri græn kunna að klóra sér í höfðinu yfir örlögum sínum. Ástæða hrakfara þeirra er hins vegar augljós.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, átti í síðustu viku fund með leiðtoga hvítrússnesku stjórnarandstöðunnar. Stjórnarandstaðan í Hvíta-Rússlandi hefur gagnrýnt harðlega kjörræðismann Íslands þar í landi, Alexander Mosjenskíj, sem er náinn forseta landsins, Alexander Lúkasjenko, „síðasta einræðisherra Evrópu“ og helsta bandamanni Pútíns Rússlandsforseta. Ekki var þó rætt um stöðu hins umdeilda kjörræðismanns á fundinum og vildi Katrín ekki svara spurningum um persónulega skoðun sína á samstarfi Íslands og Mosjenskíj þegar blaðamenn Stundarinnar leituðu eftir því.

Katrín fór ekki jafnleynt með skoðanir sínar í sömu viku þegar Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi úr gildi fordæmisgefandi úrskurði Roe gegn Wade frá árinu 1973, sem bannaði ríkjum að takmarka rétt kvenna til þungunarrofs. „Gífurleg vonbrigði,“ sagði hún í færslu á samfélagsmiðlinum Twitter. Ekki fylgdi þó sögunni hvað henni finnst um að dómsmálaráðherra hennar eigin ríkisstjórnar hafi kosið gegn nýlegu frumvarpi um aukna heimild kvenna á Íslandi til þungunarrofs.

Vinstri græn eru eins og Keir Starmer. Svo djúp gjá er á milli orða þeirra og athafna, fagurra fyrirheita og ákvarðana ríkisstjórnarinnar sem þau heita að leiða, að kjósendur hafa ekki hugmynd um hver þau eru. „Rétt eins og flokkurinn hefur þegar sannað að hann er ekki lengur vinstrihreyfing með þjónkun sinni við efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins, þá er nú morgunljóst að hann er ekki heldur grænt framboð,“ sagði Illugi Jökulsson í pistli á Stundinni þar sem hann gagnrýndi Vinstri græn fyrir nýsamþykkta rammaáætlun.

Galleríeigandinn í Osló er í vanda. Vonsviknir viðskiptavinir hafa kært hann og gert fjárkröfur á hendur honum sem nema tæpum einum og hálfum milljarði íslenskra króna. Werner Jensen er hins vegar í góðum gír. Hann er farinn að mála aftur og selur nú verk sín á netinu.

Dulnefni? Listamannsnafn? Kannski eru Vinstri græn einfaldlega ekki til.