Með valdi fylgir á­byrgð. Ríkja þarf traust á milli aðila sem fara með völd í sam­fé­laginu, þetta vitum við. Kennarar eru upp til hópa ríkis­starfs­menn, sem bera mikla á­byrgð á mótun sam­fé­lagsins og ein­stak­linganna innan þess. Völd og skyldur kennara eru meðal annars að slípa ó­full­mótaða ein­stak­linga og kenna þeim um réttindi, skyldur og grunn­gildi lífsins. Að vera hluti af sam­fé­laginu. Þarna hafa kennarar unnið frá­bært starf í ára­tugi og er starfs­stétt sem fær mitt lof fyrir sitt fram­tak til sam­fé­lagsins. 
Í sam­tölum mínum við fram­halds­skóla­nema um gæði náms og náms­efnis, hefur það komið til tals, hvernig sumir kennarar inn­ræti skoðanir sínar inn í á­kveðin um­fjöllunar­efni og leyfi ekki mál­efna­legri um­ræðu að eiga sér stað, án þess að grípa inn í og koma sínum skoðunum að. Í þessum um­ræðum getur um­fjöllunar­efnið verið allt frá deilum Ísraels og Palestínu, Trump sem for­seta Banda­ríkjanna eða hvernig dómurum var skipað í Lands­rétt, og allt eru þetta mál þar sem engin ein skoðun er réttari en önnur. 
Fram­setning náms­efnis af hálfu kennarans skal vera höfð með þeim hætti að öll sjónar­mið komi fram, svo nemandinn geti mótað sínar eigin skoðanir út frá um­fangs­efninu, án inn­rætingar og af­skipta kennarans. Þekkingin skapast með því að kynna sér allar hliðar málsins og með því að geta fært rök fyrir skoðun sinni. 
Ein­staka dæmi eru til um kennara sem koma með pólitíska slag­síðu inn í kennslu­stofuna og um­ræðurnar sem þar eiga sér stað. En það eitt er senni­lega ekki eitt­hvað sem þarf að gera stór­mál úr. Þó sumum geti þótt það vera trassa­skapur. 
Í dag má samt sem áður finna dæmi um há­værar raddir innan þjóð­fé­lagsins sem vilja pólitíska inn­rætingu inn í kennslu­stofuna. Þessir ein­staklingar vilja gera kynja­fræði að skyldu­fagi í öllum fram­halds­skólum landsins. Í kynja­fræði er aðal á­herslan lögð á að skoða og greina hlut­verk kyns og kyn­gervis í sam­fé­laginu. Einnig er fjallað um þjóð­erni og stétt út frá sjónar­hóli kynja­fræðinnar, á­samt birtingar­mynd valda­tog­streitu í sam­fé­laginu. Dæmi um um­fjöllunar­efni er t.d. feðra­veldið og önnur góð og gild hug­tök. 
Stefna SÍF er að kynja­fræði verði gerð að skyldu­fagi í öllum fram­halds­skólum landsins. Ef að kynja­fræði verður gerð að skyldu­fagi í fram­halds­skólum má spyrja sig að því af hverju það eigi ekki að gera marxísk fræði að skyldu­fagi líka, svo eitt­hvað dæmi sé nefnt. Því kynja­fræði er eins og marxísku fræðin, pólitísk hug­mynda­fræði. 
Höldum á­fram að gera vel á sviði jafn­réttis­mála, hægt er að láta nem­enda­fé­lög og skóla­yfir­völd vinna saman að ýmsum verk­efnum tengdum jafn­rétti, í stað þess að skylda alla að nema pólitíska hug­mynda­fræði. Sam­fé­lagið er á réttri veg­ferð í jafn­réttis­málum, við erum að gera vel og við munum gera enn betur á komandi árum. Kynja­fræði sem skyldu­fag er ekki töfra­lausnin.

Höfundur er for­maður Sam­bands ís­lenskra fram­halds­skóla­nema.