Á sama tíma og jörð hefur endurtekið leikið á reiðiskjálfi um þvert og endilangt landið – og rifnað sums staðar upp með eldum úr neðra, er íslensk pólitík með rólegasta móti.

Raunar hefur hún verið harla litlaus um langa hríð, svo mjög að besta slagorð stjórnmálanna á seinni árum fjallaði í grunninn um það að slaka bara á og vera ekki með vesen, heldur kjósa bara það gamla. Og það gekk raunar eftir með góðum sigri Framsóknar til þings og borgar.

Aðrar breytingar eru óljósar, nema ef vera kynni að hressilegur Sósíalistaflokkurinn virðist vera að festa sig í sessi fyrir norðan fimm prósentin og hefur tekist að hrista nokkuð upp í umræðunni.

Af öðrum flokkum er fátt að segja. Sjálfstæðisflokkurinn hangir yfir tuttugu prósentunum eins og hann á orðið að venjast, og er ekki lengur sú kjölfesta í íslenskum stjórnmálum sem hann var lengst af síðustu öld og fram á nýja, enda þarf hann endurtekið á hækju Vinstri grænna að halda til að sitja áfram að völdum.

Fyrir vikið hefur verið efast um hvort VG standi lengur undir nafni, en jafnvel fyrrverandi ráðherra flokksins telur hann hvorki lengur til vinstri né vera grænan. Hvað sem því líður er fylgi flokksins að festast undir tíu prósentunum.

Samfylkingin hefur ekki náð sér á strik undir forystu Loga Más Einarssonar, þótt flokkurinn hafi vissulega hækkað risið frá því hann taldi einungis þrjá þingmenn – og þar af engan í Reykjavík og Kraganum, enda lét þáverandi formaður, Oddný G. Harðardóttir, þegar af völdum og Logi tók við. Hvort arftaki hans muni lyfta fylgi flokksins er allsendis óvíst.

Viðreisn hefur heldur ekki höfðað til þess fjölda sem að var stefnt í upphafi, en hefur þó sannarlega lækkað risið á Sjálfstæðisflokknum. Við blasir að vandi Viðreisnar er að ná ekki fylgi út fyrir sínar raðir.

Píratar hafa það bara gott, eru svolítið komnir á sjálfstýringu í sínum pólitíska einleik, þótt þeir geti greinilega boðið öðrum sviðið með sér. Og álíka sögu er að segja af Flokki fólksins sem hefur fundið sína fjöl, en raunar þá einu. Og svo er til Miðflokkur, en það er reyndar orðið mjög tæpt.

En það vantar pólitík í þetta allt saman. Sérstöðu. Sýn. Eldmóð. Og umfram allt kjark.