Ekki sér fyrir endann á foringjavandræðum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en hann hefur engan veginn náð sér á strik eftir brotthvarf Davíðs Oddssonar úr stóli borgarstjóra fyrir réttum þremur áratugum.

Tími sterka flokksins sem átti borgina er liðinn – og líklega er það pólitískur ómöguleiki að hann nái að nýju hreinum meirihluta í Reykjavík, sem lengi fram eftir síðustu öld þótti vera sjálfsagt mál.

Kemur hér fernt til sögunnar. Stjórnmálaflokkar eiga ekki lengur kjósendur sína í þeim mæli sem áður var, þegar móta sást fyrir flokksstimplinum á skírnarvottorði nýfæddra barna. Auðveldara hefur verið á síðustu fjórum áratugum að stofna nýja flokka og halda þeim úti lengur en eitt kjörtímabil.

Tími sterkra og valdasækinna foringja er ekki lengur ávísun á árangur í pólitík – og svo eru það örlög gamalla flokka að sitja uppi með gamaldags áherslur, sem meginþorri ungra kjósenda hefur engan áhuga á að gera að sínum.

Og það síðastnefnda virðist vera raunin hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík, að minnsta kosti þeim parti hans sem nú leiðir listann, en trúin á tilveru bílastæða og breiðra akbrauta þvers og kruss um borgina ætlar seint að bila að einhverju ráði.

Og einu atriði má raunar bæta við þessa upptalningu, en það er sú staðreynd að gamlir Sjálfstæðismenn sem muna stórkostlega tíma í valdasögu flokksins í Reykjavík, hafa einfaldlega ekki getað unnað öðrum þess að stjórna borginni, og hafa tamið sér orðbragð í garð andstæðinganna sem fremur er sæmandi áhugafólki um einræði, en lýðræði.

Annað orð yfir þessi ósköp er pólitísk ólund – og það verður að segjast alveg eins og er að það stafar engum sérstökum kjörþokka af því geðslagi.Þessa varð fyrst vart eftir áfallið 1978, það mikla vinstra ár, þegar fimm fulltrúar Alþýðubandalagsins náðu völdum með fulltingi tveggja krata og eins úr Framsókn.

En eftir að Davíð Oddsson náði flokknum að nýju yfir fimmtíu prósentin í kosningunum 1982, héldu sannfærðir flokksmenn að vinstrislysin yrðu ekki fleiri. Og allt útlit var fyrir að svo yrði. Davíð átti borgina. Í kosningunum 1990 fékk hann yfir sextíu prósenta fylgi, sem skaut honum í landsmálin.

En þar með var loftið búið í blöðrunni. Eftir það hafa eins kjörtímabils oddvitar komið og farið. Og von er á þeim áttunda. Í minnihluta.