Því er svo farið í stjórn­málum síðari tíma að lyginni vex ás­megin. Þessa sér stað bæði vestan hafs og austan. Og birtingar­myndin er auð­vitað lyginni líkust.

Hagur Bret­lands nú um stundir er sár­græti­legt dæmi um af­leiðingar þessara lyga, en þar óðu and­stæðingar Evrópu­sam­bandsins uppi með ein­hverja skreytnustu skrök­vísi sem sögur fara af í seinni tíma þjóð­mála­um­ræðu.

Ekki reyndist flugu­fótur vera fyrir upp­hrópunum þeirra eftir að stór hluti þjóðarinnar hafði verið fíflaður til að greiða ein­angruninni at­kvæði. Og eftir stendur hrakið heims­veldi sem rekur lestina innan OECD hvað efna­hags­þróun varðar. Pótintátar Brexit full­yrtu að heil­brigðis­kerfið myndi batna við út­göngu, skattar myndu lækka, launin batna og orku­verð falla. Ekkert af þessu gekk eftir.

Sömu orð­há­karnir héldu því fram að matar­verð myndi lækka til muna eftir að Brussel­valdinu sleppti og kaup­máttur al­mennings ykist þar af leiðandi. Hvorugt hefur gerst.

Brexit-sinnarnir hrópuðu líka há­stöfum að út­gangan yki tæki­færi nýrra kyn­slóða, enda myndi opin­ber þjónusta eflast til muna og við þeim blasa sam­fé­lag sem þeir gætu loksins verið stoltir af. Allir þekkja nötur­lega and­stæðuna sem breska þjóðin skammast sín núna fyrir.

Og þessir pólitísku lyga­merðir voru auð­vitað einnig á því að það kæmist á pólitískt jafn­vægi í Bret­landi eftir að það segði skilið við Evrópu­sam­bandið. Þjóð­mála­óró­leikinn, allt frá tíma Tony Blair, yrði loksins að baki og stöðug­leiki í stjórn­málum kæmist á. Allir þekkja hvernig fór – og hvað enn þá gengur á.

Bret­land er í kreppu sem ekki sér fyrir endann á. Efna­hagur landsins hefur sokkið svo djúpt að það kæmist ekki aftur inn í Evrópu­sam­bandið þótt meiri­hluti lands­manna kærði sig um það. Eitt af skil­yrðum sam­bandsins fyrir aðild er að um­sóknar­þjóðir skuldi ekki nema sex­tíu prósent af lands­fram­leiðslu. Því er ekki að heilsa hjá nýju og ein­angruðu Bret­landi, en skuldir þess eru nú hundrað prósent af lands­fram­leiðslu. Og sér raunar ekki fyrir endann á þeim gríðar­lega fjár­hags­vanda.

Enn ein birtingar­mynd þessa ó­trú­lega klúðurs að yfir­gefa sína nánustu í álfunni er ákafi ráða­manna á Norður-Ír­landi, Skot­landi og Wa­les að komast burt frá þessu rugli öllu saman – og standa fremur á eigin fótum en að reiða sig á­fram á í­halds­ó­vissuna í Downing­stræti.

Og það er lík­leg sviðs­mynd að Brexit skilji Eng­land eftir eitt og yfir­gefið, smánað og fá­tækara en áður. En það er lyginni líkast.