Því er svo farið í stjórnmálum síðari tíma að lyginni vex ásmegin. Þessa sér stað bæði vestan hafs og austan. Og birtingarmyndin er auðvitað lyginni líkust.
Hagur Bretlands nú um stundir er sárgrætilegt dæmi um afleiðingar þessara lyga, en þar óðu andstæðingar Evrópusambandsins uppi með einhverja skreytnustu skrökvísi sem sögur fara af í seinni tíma þjóðmálaumræðu.
Ekki reyndist flugufótur vera fyrir upphrópunum þeirra eftir að stór hluti þjóðarinnar hafði verið fíflaður til að greiða einangruninni atkvæði. Og eftir stendur hrakið heimsveldi sem rekur lestina innan OECD hvað efnahagsþróun varðar. Pótintátar Brexit fullyrtu að heilbrigðiskerfið myndi batna við útgöngu, skattar myndu lækka, launin batna og orkuverð falla. Ekkert af þessu gekk eftir.
Sömu orðhákarnir héldu því fram að matarverð myndi lækka til muna eftir að Brusselvaldinu sleppti og kaupmáttur almennings ykist þar af leiðandi. Hvorugt hefur gerst.
Brexit-sinnarnir hrópuðu líka hástöfum að útgangan yki tækifæri nýrra kynslóða, enda myndi opinber þjónusta eflast til muna og við þeim blasa samfélag sem þeir gætu loksins verið stoltir af. Allir þekkja nöturlega andstæðuna sem breska þjóðin skammast sín núna fyrir.
Og þessir pólitísku lygamerðir voru auðvitað einnig á því að það kæmist á pólitískt jafnvægi í Bretlandi eftir að það segði skilið við Evrópusambandið. Þjóðmálaóróleikinn, allt frá tíma Tony Blair, yrði loksins að baki og stöðugleiki í stjórnmálum kæmist á. Allir þekkja hvernig fór – og hvað enn þá gengur á.
Bretland er í kreppu sem ekki sér fyrir endann á. Efnahagur landsins hefur sokkið svo djúpt að það kæmist ekki aftur inn í Evrópusambandið þótt meirihluti landsmanna kærði sig um það. Eitt af skilyrðum sambandsins fyrir aðild er að umsóknarþjóðir skuldi ekki nema sextíu prósent af landsframleiðslu. Því er ekki að heilsa hjá nýju og einangruðu Bretlandi, en skuldir þess eru nú hundrað prósent af landsframleiðslu. Og sér raunar ekki fyrir endann á þeim gríðarlega fjárhagsvanda.
Enn ein birtingarmynd þessa ótrúlega klúðurs að yfirgefa sína nánustu í álfunni er ákafi ráðamanna á Norður-Írlandi, Skotlandi og Wales að komast burt frá þessu rugli öllu saman – og standa fremur á eigin fótum en að reiða sig áfram á íhaldsóvissuna í Downingstræti.
Og það er líkleg sviðsmynd að Brexit skilji England eftir eitt og yfirgefið, smánað og fátækara en áður. En það er lyginni líkast.