Kröftug inn­koma Krist­rúnar Frosta­dóttur í leið­toga­hlut­verk Sam­fylkingarinnar hreyfir við ís­lenskri pólitík. Það sýna nýjar kannanir sem Frétta­blaðið hefur birt á síðustu dögum, en ekki einasta nálgast fylgi jafnaðar­flokksins þau tuttugu prósentin sem Sjálf­stæðis­flokkurinn státar af þessa dagana, heldur stekkur nýi for­maðurinn upp fyrir for­sætis­ráð­herra landsins í mati svar­enda á því hvaða stjórn­mála­leið­toga þeir treysta best.

Þetta eru tíðindi í ís­lenskum stjórn­málum. Og þótt nýja­brumið hjálpi Krist­rúnu vissu­lega, sem hefur auð­vitað ekki glímt við sama and­streymi og for­maður Vinstri grænna á undan­förnum vikum, svo líkja má við and­úð á köflum, þá er aug­ljóst að hún nær vel út fyrir það lítil­fjör­lega fasta­fylgi sem Sam­fylkingin hefur haft um ára­tugar skeið.

Það sama verður ekki sagt um aðra for­ystu­menn stjórn­mála­flokkanna, hvorki Katrínu Jakobs­dóttur né Bjarna Bene­dikts­son, raunar einkum og sér í lagi þann síðar­nefnda sem virðist ó­lík­legastur af nú­verandi flokks­for­mönnum á Al­þingi til að sækja fylgi út fyrir raðir sínar, en þær virðast fremur þrengjast en víkka nú um stundir. Kannanir í að­draganda lands­fundar Sjálf­stæðis­flokksins stað­festu þetta, ef eitt­hvað er, en sam­kvæmt þeim virtist keppi­nautur Bjarna vera frekar til þess fallinn að laða að nýtt fylgi en sá sem sigurinn hreppti.

For­maður Fram­sóknar­flokksins glímir líka við litla lýð­hylli út fyrir sínar raðir, en sá er þó munurinn á þeim flokki og hinum tveimur sem eiga sæti við ríkis­stjórnar­borðið að for­mennska í þeim gamal­góða bænda­flokki hefur aldrei verið sama höfuð­at­riði og hjá þeim flokkum sem hafa staðið lengst til vinstri og hægri. Það er í anda sam­vinnu­hug­sjónarinnar.

En megins­purningin er auð­vitað þessi nú um stundir í ís­lenskri pólitík hvort nýjum for­manni Sam­fylkingarinnar muni takast að festa fylgi hennar við tuttugu prósentin og vera þannig raun­veru­legur keppi­nautur við Sjálf­stæðis­flokkinn sem, þrátt fyrir allt, ber enn sem fyrr höfuð og herðar yfir aðra flokka á sviði ís­lenskra stjórn­mála. Og þótt and­stæðingum hans hafi ekki leiðst að benda á hnignandi fylgi hans á undan­förnum árum – og raunar það sem af er þessari öld, þá hafa aðrir flokkar ekki enn komist þangað með tærnar þar sem í­haldið hefur hælana á síðustu ára­tugum, nema endrum og sinnum – og aldrei til fram­búðar.

Krist­rún hefur opnað flokk sinn. Í því felst jafn mikið á­ræði og á­hætta. Hún hefur losað um gömlu grund­vallar­skil­yrðin. Það virkar strax, hvað svo sem síðar verður.