Pólitíkin er oft og tíðum á sjálfstýringu. Hún er rekin áfram af embættismannakerfinu, sem, ef út í það er farið, tekur lýðræðislega kjörnum fulltrúum oft fram í völdum og áhrifum. Enda koma pólitíkusar og fara. En embættið situr áfram. Og lifir alla pólitík af.

En þegar mest þarf á því að halda – hinu raunverulega lýðræði, fulltrúunum sem kosnir eru til áhrifa og þess mikilvæga starfa að móta samfélagið, þá reynir auðvitað á pólitíkina. Og þá einmitt afhjúpar hún sig sjálf.

En aldrei meira og skýrar en á niðurskurðartímum. Þegar skórinn kreppir. Þá opinbera stjórnmálin sig með skýrustum hætti.

Meirihlutaflokkarnir í Reykjavík standa nú frammi fyrir þessari mikilvægu áköllun. Og eftir atvikum minnihlutaflokkarnir líka. Því það getur enginn skorast undan lýðræðislegri ábyrgð þegar þrengir að og borgarsjóður þarf að sníða sér stakk eftir vexti.

Og núna kemur sumsé á daginn úr hverju flokkarnir eru gerðir. Hverjum þeir vilja hlífa og hvar þeir vilja beita niðurskurðarhnífnum.

Það er á sársaukafullum tímum sem þessum sem stjórnmálahreyfingum er hættast við að gleyma stefnuskrám sínum í skiptum fyrir snyrtileg excel-skjöl. Og þetta er einmitt líka tíminn sem svo auðvelt er að gleyma með öllu kosningaloforðunum og digurbarkalegu tækifærisræðunum á opinberum vettvangi.

En núna fellur einmitt það augljósa undir skærustu birtuna. Næsta litlaus hversdagspóli­tíkin tekur við af upphöfnum tyllidagaboð­skapnum. Og það þarf að gera það sem engan stjórnmálamann langar til að gera nema ef til vill í lengstu lög, að bregðast einhverjum þeim ótalmörgu sem telja sig eiga rétt á opinberum fjárframlögum, kippa jafnvel grundvellinum undan starfsemi þeirra og afkomu.

Meirihlutinn í Reykjavík – og minnihlutinn sömuleiðis – er nú í kjörstöðu til að sýna hver hans raunverulega pólitík er á ögurstundu. Hvorir tveggja munu nú á næstu dögum og vikum sýna borgarbúum hvað þeir standa fyrir í raun og sann.

Og stóra spurningin er ágeng. Mun nauðsynlegustu – og á stundum lífsnauðsynlegustu – þjónustunni verða þyrmt, þar á meðal við börn og ungmenni, svo og það fólk sem stendur höllustum fæti, eða ekki? Og má vera að þessu verði snúið á hvolf, að embættismannakerfinu sjálfu verði einkum hlíft á kostnað framlínunnar, á tímum þegar borgarstarfsmönnum hefur fjölgað langt umfram borgarbúa?

Við erum að tala um pólitík.