Hvað eiga pólitíkusar og pandabirnir sameiginlegt?

Pandabirnir eru á barmi þess að teljast í útrýmingarhættu. Náttúruverndarsamtök hafa róið að því öllum árum að búa pöndum hið fullkomna kjörlendi. Ný rannsókn sýnir hins vegar að velmegun pöndunnar gæti orðið hennar bani. Pöndur sem hafa komið sér of þægilega fyrir á búsvæði halda ekki á nýjar slóðir í leit að mökum og mat.

Í dag er kjördagur. Kjósendur standa frammi fyrir hlaðborði loforða. Matvöruverslun ein fékk forystufólk flokkanna til að fanga stefnu sína á bókstaflegu veisluborði. Hver flokkur deildi með kaupendum uppáhaldsuppskriftinni og má nú kjósa á milli þeirra á netinu. Framsókn býður upp á „framsækna lambaskanka“, Píratar „banana-lýðveldis-splitt“ og Viðreisn „evrópsk brauðréttindi“ svo fátt sé talið.

Rannsókn á pandabjörnum sýnir að hæfilega mikið af óþægindum og erfiðleikum hjálpar til við að varðveita tegundina. Sé áreiti til staðar þurfa pöndur að hafa fyrir tilveruréttinum og horfa í nýjar áttir. Slíkt leiðir til aukinnar erfðafræðilegrar fjölbreytni, sem er lykillinn að því að þær lifi af.

Sömu lögmál ríkja í pólitík. Komi fólk eða flokkar sér of þægilega fyrir í kjörlendi sínu er það samfélaginu sjaldnast til góðs.Fjölmiðlar eru stjórnmálafólki oft óþægur ljár í þúfu. Þeir eru hins vegar óþægindin sem tryggja að pólitíkusar séu á tánum. Ef fjölmiðlar fengju pláss á hinu bókstaflega pólitíska veisluborði væru þeir sítrónukaka, súrt og sætt, dæmi um fullkomið samspil áreitis og ánægju.

Eftirfarandi er uppskrift að sítrónuköku súra pistlahöfundarins, tilvalin með kosningakaffinu.

Sítrónukaka súra pistlahöfundarins

225 g smjör

225 g strásykur, fínn

275 g sjálflyftandi hveiti

1 tsk. lyftiduft

4 egg

4 msk. af mjólk

Rifinn börkur af tveimur sítrónum

Í glassúrinn

175 g strásykur

Safi úr tveimur sítrónum

1. Hitið ofninn í 160°C. Smyrjið 20 sm hringlaga, djúpt kökuform að innan með smjöri og setjið smjörpappír í botninn.

2. Hrærið hráefninu í kökuna saman í hrærivél í tvær mínútur. Setjið blönduna í formið og bakið í ofni í 1 klst. eða 1 klst. og 10 mín.

3. Hrærið saman hráefninu í glassúrinn í skál.

4. Þegar kakan er tilbúin, takið hana úr ofninum og hellið glassúrnum yfir.

5. Leyfið kökunni að standa í fimm mínútur og takið hana svo úr forminu. Gleðilegan kjördag.