Til þess að reyna að skilja hvernig íslensk pólitík hefur þróast á undanförnum árum hef ég myndað mér kenningu. Hún er svona: Fyrir rúmum tíu árum fór allt á hliðina. Upp úr þeim hildarleik leystust úr læðingi kraftar. Góðærið hafði drekkt samfélagsrýnum og hugsjónafólki í Mojito árin á undan, en nú þusti þetta fólk fram. Þjóðfélagið skyldi endurhugsað. Fólk var reitt. Fólk var hugsi. Fólk var reiðubúið að breyta og bylta.

Ferlar voru settir af stað. Stjórnarskráin skyldi endurskoðuð. Samningur um aðild að ESB skyldi kláraður og settur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samráðsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda var settur á laggirnar. Stefnumótun um Ísland 2020 var ýtt úr vör. Nefnd um grænt hagkerfi skilaði metnaðarfullum tillögum. Alls konar skýrslur og greiningar litu dagsins ljós. Nýir flokkar urðu til. Nú átti að gera þetta rétt. Útkljá málin. Byggja upp.

En svo gerðist ekki neitt. Ekki bofs. Fimm ár liðu og öllum þessum pælingum, hverri einni og einustu, var ýtt út af borðinu. Eftir stóðu í ofanálag rjúkandi rústir á þingi. Innanflokksátök í flokkum og fylkingum höfðu smám saman orðið óbærileg. Stjórnmálalífið var þjakað af deilum.

Þá ákváðu Katrín, Bjarni og Sigurður að þau nenntu þessu ekki lengur. Einkunnarorð þeirra samstarfs eru þessi: „Myndum bara einhverja ríkisstjórn krakkar og hættum að rífast. Í alvöru. Það er enginn að nenna þessu.“

Afl leiðindanna

Ég skil þetta smá. Leiðindi eru ótrúlegt afl. Úthald fyrir langvarandi leiðindum í frjálsu velferðarsamfélagi er mjög lítið. Fólk fer bara til útlanda. Eða heim að taka til í bílskúrnum. Eða upp í bústað. Í Landvættina. Eða sækir um sem kynlífstækjaprófarar, eins og vinsælt er samkvæmt nýjustu fréttum. Að mæta á einhverja fundi og rífast við munnandandi besserwissera um þjóðfélagsmál er ekki ofarlega á óskalistanum. Sérstaklega ef ekkert kemur út úr því.

Íslensk stjórnmálaleiðindi eru nefnilega mjög djúp og sérstök tegund af leiðindum sem geta mjög auðveldlega leitt til yfirgripsmikillar tómhyggju um samfélagsleg málefni. Því má halda fram að á Íslandi gerist ekki neitt nema það gerist fyrst annars staðar. Við erum þiggjendur byltinga. Ekki gerendur. Við breyttum ekki úreltri vinnulöggjöf fyrr en við fórum að innleiða tilskipanir frá Evrópu, möglunarlaust. Eftir áratuga rifrildi um herinn sem tvístraði þjóðinni í lopapeysukomma og Kanasleikjur varð niðurstaðan engin. Herinn fór bara. Ég hugsa að ferðamenn verði endanlega farnir áður en okkur auðnast að skipuleggja ferðaþjónustuna. Og einhvern daginn verða fundnar upp flugvélar sem þurfa ekki flugvelli. Þá munum við hætta að rífast um Reykjavíkurflugvöll.

Spyrja má: Getur einhver nefnt yfirgripsmikið deilumál á Íslandi sem hefur verið leitt til lykta af okkur sjálfum? Hefur eitthvað pólitískt afl afrekað slíkt?

Nei.

Spá og ráðlegging

Þau dúkka upp með reglulegu millibili hin hefðbundnu rifildisefni, óútkljáð. Í vikunni skaut upp kollinum gamall kunningi: Jöfnun atkvæða. Napur veruleiki blasti við. Meira að segja jafnaðarmenn virðast hafa gefist upp á þeirri langvinnu þrætu.

Kannski er íhaldssemin næstum ókleifur virkismúr og Íslendingar örgustu þrjóskupúkar sem hugsa bara um næstu torfu í trollið og ekkert er hægt að tjónka við. Ég veit ekki. Í öllu falli vil ég meina að samfara þessari þróun, þessari sigurgöngu leiðindanna, hafi pólitíkin næstum því dáið. Tilgangur nánast hvarf. Hugsjónaeldar loga ekki. Umbreytingaröfl sneru lúnum bökum saman við íhaldsöfl og gerðu samkomulag um að hætta að rífast. Í ríkisstjórn er ágætis fólk. Forsætisráðherra er vinsæll. Verkefnið er að halda þessu þjóðfélagi gangandi og breyta litlu. Kannski er ekki hægt að biðja um meira.

Þessi nálgun hefur gefist vel í heimsfaraldri. Auðvelt hefur reynst að stíga til hliðar og leyfa fagfólki að móta viðbrögðin. Margir hugsa skiljanlega að þannig séu stjórnmál best. Þegar þau leyfa fólki með þekkingu að ráða. Kórónaveiran hefur þannig dregið fram styrkleika ástandsins og styrkleika ríkisstjórnarinnar.

En hversu lengi virkar þetta módel? Ég segi að pólitík hafi næstum því dáið. Enn er lífsmark. Á 21. öldinni blasa við risastór viðfangsefni. Hamfarahlýnunin er ekki farin. Samfélagið þarf að breytast. Ég er ögn hissa á því að gagnvart svo krefjandi framtíð skuli ekki eitthvert stjórnmálaafl hafa stigið inn í tómarúmið með vel ígrundaðar áætlanir að vopni. Öðrum þræði sýnir það andvaraleysi að kenning mín um yfirburði leiðindanna er laukrétt. Hinu leyfi ég mér þó að spá:

Óþreyjan mun vaxa. Við munum þarfnast hugsjóna. Veirukófið endar líklega sem ígildi annars hruns og þar með aflgjafi nauðsynlegrar umræðu og ákvarðanna. Hvernig á Ísland að vera? Hafi ríkisstjórnarflokkarnir í hyggju að sækja aftur umboð á grunni fyrirheita um átakaleysi og ró, og lítið meira, þurfa þeir að efna til kosninga sem fyrst næsta vor, því tíminn tifar. Í fjarska spangólar tíkin. Pólitíkin. Hún er vöknuð og hún nálgast hratt.