Íslensk pólitík er á skaki. Hún er sjaldnast þar sem hennar er þörf. Og hún er á stundum alltof upptekin af sjálfri sér til að taka eftir aðalatriðunum, fólkinu sjálfu, sem þarf á þjónustu hennar að halda.

Öðru fremur er pólitíkin verkfæri til að laga samfélagið. Meginverkefni hennar á að vera að greiða götu venjulegs fólks sem tekst á við hversdagslegar áskoranir – og bæta hag þess í hvívetna.

En það gerir hún ekki, eða öllu heldur sjaldnast, svo allrar sanngirni sé gætt. Og það er líklega vegna þess að pólitíkin framselur vald sitt til embættismannaklíkunnar og stofnanaveldisins sem fer öðrum fremur með framkvæmdavaldið í samfélaginu, rétt eins og ráðríkum mönnum þar sýnist, langt umfram lýðræðislegt umboð.

Í hverju samfélagi – og gildir einu hversu fjölmenn þau eru – ræður hundrað manna klíka sem stendur saman af ríkjandi landsstjórn og embættismannamagtinu í kringum hana, svo og forsvarsmönnum þeirra ríkisstofnana sem hafa mestu yfirráðin í landinu.

Og eftir því sem ríkin eru fámennari þeim mun minna framboð er af hæfileikaríku og réttsýnu fólki í þessar stöður. Meðalmennskan er fylgifiskur fámennis, daufleg skriffinnskan sem slær hlutunum á frest fremur en að taka á þeim. Og standi sama meðalmennskan frammi fyrir alvarlegum áskorunum eru heilu og hálfu starfshóparnir settir saman til að skiptast á skoðunum þar til minnsti samnefnari nefndarmanna skilar af sér áliti sem aldrei kemur til framkvæmda.

Það er af þessum sökum sem íslensk pólitík skilur fólkið eftir úti á berangri. Hljóð og mynd fer ekki saman. Öskrin eru meiri en eftirbreytnin. Og tilþrifin í ræðustól eru ekki í neinu samræmi við þarfir almennings.

Tökum bara eitt dæmi. Bara eitt. Það er lýsandi. En segir eina grátlegustu sögu af aðgerðaleysi íslenskra stjórnmála sem láta embættismannagenginu eftir að safna skýrslum sínum á skrifborðsendana.

Á Íslandi er upp undir tveggja ára bið fyrir ungabörn með málþroskaröskun, en fyrir vikið líða foreldrar þeirra vítiskvalir og börnin fara á mis við framfarir á viðkvæmasta aldursskeiði sínu.

Pólitíkin ræður ekki við þetta úrlausnarefni af því að hún er upptekin við aukaatriði. Og hún framselur vald sitt til stofnana sem eru uppteknari af sjálfum sér en fólki.

Hundrað svona dæmi mætti nefna. Einmitt þar sem fólk skiptir minna máli en pólitíkin sjálf.