Í hipsterahverfinu Prenzlauerberg í Berlín er gata sem ber nafnið Kastaníusund.

Kastaníusund ber nafn með rentu og kastaníuhnetur liggja á víð og dreif á gangstéttum innan um gulnuð haustlauf.

Þarna er hin framúrskarandi hárgreiðslustofa Fjörutíu og tveir, rekin af ungum Tyrkjum sem eru brjálæðislega flinkir með hár. En erindið í hverfið er plötubúðin fræga. Fyrir hvað er þessi plötubúð fræg? Hún er fræg fyrir það að vera versta plötubúðin í Berlín.

Það er vel þess virði að gera sér ferð inn á Google og lesa umsagnirnar 313 um Franz & Josefs Plattenladen, sem er með 1,9 í einkunn af 5 mögulegum. „Versta reynsla lífs míns” og „ég er enn í áfalli” er það sem slegnir viðskiptavinir, heimamenn og ferðamenn, skrifa með titrandi höndum í viðleitni til að vara aðra við.

Eigandinn er eldri maður sem hatar eftirfarandi: Fólk sem er að ferðast, fólk sem býr í Berlín, fólk sem er að skoða, fólk sem skoðar ekki, fólk sem spyr spurninga, fólk sem spyr ekki neitt, fólk sem er hipsterar og svo hatar hann líka alla hina sem eru ekki hipsterar. „Og komdu aldrei aftur!“ gargar hann á fólkið.

Það voru sár vonbrigði að fá fína þjónustu þarna í dag. Hluti af mér þráði að vera hafnað og þjást með hinum. Svo hefði líka verið geggjað að vera sérvalin og samþykkt af ófétinu. En þarna var bara einhver ungur og almennilegur maður. Ansans.