Hvern einasta dag rata um átta milljónir plasthluta í sjóinn og áætlað hefur verið að plast þeki 1,6 milljónir ferkílómetra á sjávarbotni. Það samsvarar að Þýskaland, Frakkland, Ítalía og Spánn væru alþakin plasti. Plast er orðið svo útbreitt að það var nýlega uppgötvað inni í jöklum Norður-Íshafs.

Ár hvert eru framleidd um 400 milljónir tonna af dauðagildru, en plast drepur um 100 milljónir sjávardýra – það eru 30-falt fleiri lífverur en látist hafa af völdum Covid á ársgrundvelli.

Plast herjar líka á mannslíkamann. Við öndum því að okkur, berum það á húðina með snyrtivörum, étum það með matnum og drekkum það. Þarmar skelfisks innihalda til dæmis plast og þegar fæða er pökkuð í plast færðu plast­agnir í kaupbæti. Sýnt hefur verið að plastagnir finnast í blóði, svita og þvagi.

Fyrir ári síðan kynnti umhverfis- og auðlindaráðherra áætlunina Úr viðjum plastsins, til að sporna gegn plastmengun, en við þurfum öll að taka þátt. Þegar þú þværð polýester-flík sendirðu plastagnir í vistkerfið. Þegar þú drekkur úr plastflösku rennur plast í líkamann. Þegar þú hendir plasti leggurðu dauðagildru. Plast er allsstaðar og það er átak að hætta að nota það, en með aðgerðaleysi erum við að menga allt lífríkið.

Plastlaus september ætti að vera alla daga. Sjálf er ég farin að nota glerílát og glerrör í stað plasts, sem ég vaska upp. Ég hætti að kaupa vatn í plastflösku og drekk heldur vatn úr krana eða sodastream-tæki. Ég set ekki plastpoka utan um grænmetið og næsta skref er að kaupa ekki matvöru í plast­umbúðum. Best væri að geta sótt matvöru með eigin íláti, eða fengið hana í pappírsumbúðum. Þó þetta kosti smá vesen þá er það vel þess virði. Bæði fyrir okkar eigið líf og lífríki jarðar.