Fyrir mörgum árum sá ég frétt í fréttatíma RÚV sem sagði frá undarlegu athæfi hlaupara á Egilsstöðum sem var farinn að gera sér það til gamans að tína upp rusl af vegkantinum og taka með sér heim á hlaupum sínum um héraðssveitina. Fréttamaðurinn var undrandi á þessu og flestir líklega sem sáu fréttina. Í hugum allt of margra hefur nefnilega lifað einhvers konar fortíðarfrægð hreins og ómengað lands og svona nokkuð hlyti bara að vera eitthvað skrítið.

Þetta var Eyþór Hannesson; einhver merkasta hvunndagshetja sem Ísland hefur alið. Mörgum árum seinna kom svo tískubylgja frá Svíþjóð sem gekk út á nákvæmlega það sem Eyþór hafði boðað: hlaupið í náttúru og rusl á vegi manns tínt upp. Þetta varð að því sem á Íslandi er kallað í dag „plokk“ og er áhugamál og hreyfing um það bil sjö þúsund Íslendinga.

Eyþór varð strax lykilmaður í „plokk“-samfélaginu. Hann fór fram með góðu og hvetjandi frumkvæði og smitaði stóran hóp samfélagsins til að koma og taka þátt.

Fyrir nokkrum misserum veiktist Eyþór af krabbameini og þrátt fyrir bjartsýni, einurð og baráttu lést hann 20. febrúar síðastliðinn.

Eyþór var hvunndagshetja með hjarta úr gulli. Frumkvæði og dugnaður hans mun lifa í verkum okkar hinna og við getum treyst því að það er búið að plokka leiðina að og í gegnum Gullna hliðið ef það var þörf á því.

Fyrir hönd okkar sem plokkum sendi ég fjölskyldu og vinum hugheilar samúðarkveðjur. Plokkarar landsins ætla að minnast hans á morgun, laugardaginn 6. mars, með því að plokka í nokkra poka hvert og deila því í hans nafni á síðunni Plokk á Íslandi á Facebook.