Það er gömul saga og ný að heilbrigðiskerfið hér sé í vanda statt. Málefni bráðamóttökunnar ber nú hæst og eftir háværa umræðu hefur svokallaður átakshópur verið skipaður í þeim tilgangi að greina þann vanda sem uppi er. Að auki hefur því verið lýst yfir að einnig komi til greina að fá ráðgjafarfyrirtækið McKinsey & Company til að taka stöðuna út.

Margir kannast við fyrrnefnt ráðgjafarfyrirtæki en það var fengið til að taka út stöðuna á Landspítalanum árið 2016. Samhliða því voru settar á laggirnar nefndir til þess að greina stöðuna í frekari öreindir og heildarkostnaður var í kringum þrjátíu milljónir. Niðurstaða fyrirtækisins var nokkuð skýr en þar var meðal annars bent á að Íslendingar veiti minnst Norðurlandaþjóða af opinberu fé til heilbrigðismála, þá um 8,8 prósent af vergri landsframleiðslu. Þá kom sömuleiðis fram að meðalinnlögn hvers sjúklings væri allt of löng og væri í reynd birtingarmynd fjölda vandamála á spítalanum. Hver sjúklingur dvaldi þá að meðaltali í 7,8 daga á spítalanum.

Lagt var til að farið yrði tafarlaust í aðgerðir og þáverandi heilbrigðisráðherra lét í kjölfarið útbúa metnaðarfulla skýrslu þar sem hann fullyrti að vandinn yrði leystur innan fjögurra ára. Í dag, tæpum fjórum árum síðar, nema heilbrigðisútgjöld um 8,3 prósentum af vergri landsframleiðslu og hver sjúklingur dvelur að meðaltali í 7,6 daga á Landspítalanum.

Þó það komi vissulega til greina þá er ekki útlit fyrir að nokkuð hafi verið gert í þessum efnum, hvað þá að enn sé verið að vinna að téðu vandamáli. Þess í stað hefur vandinn fengið að vaxa og varpað skugga á alla starfsemi Landspítalans og það fína starf sem þar er unnið daglega. Til allrar lukku hins vegar hefur ný nefnd verið skipuð til að greina vanda spítalans enn frekar og leita á annarra og nýrra leiða til þess að leysa það sem miður hefur farið. Nefndin fær fjórar vikur til að skila niðurstöðum sínum og þá verður líklega skipuð önnur nefnd sem fær það hlutverk að finna út hvort leiðirnar séu í raun færar. Slík vinnubrögð hafa fengið að viðgangast lengi en núna er kominn tími til að hlusta á þá sem starfa innan veggja Landspítalans og þær áhyggjuraddir sem nú eru uppi. Það þarf miklu meira en einn plástur á sárið því sýkingin er byrjuð að grassera. Það er heldur ekki nóg að gefa bara fyrirheit, það þarf að láta verkin tala. Heilbrigðisráðherra þarf að standa í lappirnar og taka skýra afstöðu til þess sem þarf að gera – núna, ekki á morgun.