Skoðun

Plastmálin í forgangi

Plastumbúðirnar utan af Ömmupitsunni sem ég borðaði í sveitinni einn laugardag í bernsku minni gætu á þessari stundu verið syndandi um heimsins höf sem plastþræðir í sjávarlífverum. Þær gætu líka hreinlega legið í einhverri fjörunni eða verið búnar að leysast upp í litlar plastagnir, svokallað örplast, og flotið í sjónum sem slíkar.

Plast getur haft ótvíræða kosti en of mikil notkun þess snýst upp í andhverfu sína. Plast er í ofanálag í stórum stíl einnota – hent eftir eina notkun. Þetta eru plastbollar sem drukkið var úr í fimm mínútur, matarumbúðir sem enduðu beint í ruslinu, plastpokar sem fóru í eina búðarferð. Nokkurra mínútna neysla þýðir plastúrgang sem gæti enn verið til eftir 100 ár og raunar miklu lengur. Til að framleiða allt þetta plast þarf olíu og plastið sjálft getur síðan verið skaðlegt fyrir lífríki Jarðar.

Plastmálin eru eitt af forgangsmálum mínum sem umhverfis- og auðlindaráðherra. Í sumar skipaði ég starfshóp sem falið var að vinna tillögu að plastaðgerðaáætlun og í honum voru fulltrúar atvinnulífs, sveitarfélaga, félagasamtaka, opinberra stofnana, Alþingis, ráðuneyta og fleiri. Hópurinn skilaði tillögum sínum í gær, alls 18 talsins. Um er að ræða blöndu af hagrænum hvötum, banni, fræðslu og nýsköpun. Tillögurnar eru fjölbreyttar og fagna ég þeim.

Meðal þess sem lagt er til er bann bæði við burðarplastpokum í verslunum og ákveðnum tegundum af einnota plasti, s.s. plastdiskum og plasthnífapörum, þar sem til eru aðrar vistvænni lausnir. Einnig sem dæmi að ráðist verði í markvissa vitundarvakningu um ofnotkun á plasti, leidd verði í lög skylda rekstraraðila og sveitarfélaga til að flokka úrgang og stutt verði við nýjar lausnir sem komið geti í stað plasts. Tillögurnar fara nú í opið samráð og geta öll þau sem vilja gert athugasemdir við þær í Samráðsgátt stjórnvalda á netinu.

Ef fram heldur sem horfir verður árið 2050 meira plast í hafinu en fiskar. Þessu verðum við að breyta og þora að taka stór skref.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fastir pennar

Ósungnar hetjur jólanna
Sif Sigmarsdóttir

Fastir pennar

Ábyrgð óábyrgra
Kristín Þorsteinsdóttir

Bakþankar

Réttarríkið og RÚV
Sirrý Hallgrímsdóttir

Auglýsing

Nýjast

Sprengju kastað
Þorsteinn Sæmundsson

Bara misskilningur um aldursgreiningar?
Jóna Þórey Pétursdóttir

Öldrunar­þjónustan á Ís­landi - brettum upp ermar!
Þórhildur Kristinsdóttir, Baldur Helgi Ingvason og Guðlaug Þórsdóttir

Að brjóta af sér
Heiðar Guðjónsson

Úlfur, úlfur
Hörður Ægisson

Kappið og fegurðin
Þórlindur Kjartansson

Auglýsing