Sennilega hafa landsmenn ekki beðið með jafn mikilli óþreyju eftir neinu sumri og sumrinu 2021. Erfiður Covid vetur er að baki og nú þegar bóluefni ólgar um líkama æ fleiri landsmanna eykst bjartsýnin og Íslendingar iða í skinninu. Við erum eins og kýr sem hleypt er út að vori – erum tilbúin að hlaupa í allar áttir!

Og ekki í lengri tíma hefur vorveðrið leikið við okkur eins og undanfarnar vikur – ekki síst hér suðvestanlands. Það hefur vart verið skýhnoðri á himni og sólin hefur skartað sínu fegursta frá morgni til kvölds. Lofthitinn er reyndar enginn og enn er næturfrost en eftir innilokun í rúmt ár er þráin eftir útiveru og sól skynseminni yfirsterkari.

Og þessa einmunablíðu hafa hjón á miðjum aldri nýtt vel og nú þegar maí er rétt hálfnaður er allt klárt utandyra – nýtt met slegið á heimilinu. Það er búið að háþrýstiþvo pallinn, bera á allt tréverkið, klippa gróður, þrífa glugga og hús og draga fram garðhúsgögnin. Meira að segja plastblómin í allri sinni litadýrð eru komin í kerin allt í kringum húsið. (Ekki orð um plastblómin – fullreynt er að pistlahöfundur geti haldið lífi í lifandi blómum).

Að loknu góðu dagsverki hefur síðan fátt verið yndislegra en að setjast í skjól undir húsvegg og kveikja á hitalampa þannig að hægt sé að fara úr dúnúlpunni og fjarlægja lopahúfu og vettlinga. Í sameiningu sjá sólin og hitalampinn til þess að viðveran utandyra verður bærileg – en það er þessi fyrirboði í sólinni og logninu sem keyrir upp stemninguna og væntingar um betri tíð. Það sjá allir garðinn fyrir sér iðandi af lífi í sumar – grill og bubblur.

Nú má veðrið bara ekki bregðast okkur!