Ég ræddi á dögunum við jarðfræðing og náttúruverndarsinna sem er höfundur íslensku þýðingarinnar á enska hugtakinu ecocide, sem er vistmorð. Mjög alvarleg og stórfelld brot gegn náttúrunni, af ásetningi. Hún tjáði mér að í fyrstu hefði þessi þýðing reitt fólk til reiði. Jú, auðvitað finnst okkur óþægilegt að tala um morð í þessu samhengi.

Í júní í fyrra vísuðu tólf þingmenn Pírata, Vinstri grænna, Samfylkingar og Viðreisnar til ríkisstjórnar þingsályktunartillögu um að vistmorð yrði viðurkennt sem alþjóðaglæpur. Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur lögsögu í fjórum málaflokkum. Þjóðarmorðum, glæpum gegn mannkyni, strípsglæpum og glæpum gegn friði. Á dögunum kom út ný skýrsla um mikilvægi refsivæðingar vistmorða og sífellt bætist í hóp þeirra þjóða sem lýst hafa yfir vilja í þá átt.

Orðið náttúruverndarsinni, og tilvist þess orðs, er merkileg. Orðið gefur til kynna að andstæðan sé til, manneskjur sem ekki eru á bandi náttúrunnar, sem leitast ekki við að vernda hana. Það er skarpt kynslóðabil þegar kemur að því hvort fólki finnist það skrýtið. Fulltrúar kynslóða fólks með loftslagskvíða sem ólust upp við jurtamjólk á kaffihúsum eiga erfðara með að ímynda sér að til sé fólk með slíkar skoðanir: Að náttúran eigi engan rétt, og að við berum ekki ábyrgð. Hún sé okkur óviðkomandi eins og eitthvert fyrirtæki sem kemur okkur ekki við nema þegar og ef við eigum í viðskiptum við það.

Þessar vangaveltur eru jafngamlar tegundinni, um samband okkar og siðferðislega ábyrgð gagnvart náttúrunni. Í tímans rás höfum við fundið upp lagabókstafi og alþjóðalög en frumskógur, foss eða ósonlagið getur ekki að eigin upplagi fengið sér lögfræðing og krafist þess að vera lýstur sjálfstæður réttaraðili og einstaklingar bera ekki ábyrgð þó að fyrirtæki borgi í versta falli sektir.

Náttúran má sín lítils gagnvart hugmyndum mannanna og lagabreytingar af þessum toga hafa verið seigar í gang. Það breytir heimsmynd okkar ef refsiramminn gagnvart náttúruspjöllum verður endurhugsaður á þennan hátt. Ef vistmorð er glæpur, lagður að jöfnu við þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyni, og það á elleftu stundu.