Björgunaraðgerðir Icelandair ætla ekki að ganga þrautalaust fyrir sig. Eftir að mikill meirihluti félagsmanna Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) felldi nýjan kjarasamning, meðal annars stór hópur sem er á uppsagnarfresti, er ekki að sjá að áform flugfélagsins um að sækja sér allt að 30 milljarða með hlutafjárútboði gangi eftir í bráð. Frekari viðræður við FFÍ eru til einskis en Icelandair getur ekki gefið afslátt af hóflegum kröfum sínum, sem felast einkum í meiri sveigjanleika og vinnuframlagi flugliða, um að ná yfir 20 prósenta hagræðingu í launakostnaði. Enginn fjárfestir, þar á meðal lífeyrissjóðirnir, mun leggja Icelandair til aukið fjármagn nema því takist að sýna fram á að rekstrarhæfi félagsins sé tryggt til lengri tíma. Endurskoðaðir kjarasamningar skipta þar lykilmáli.

Flugfreyjufélagið hefur kosið að gera lítið úr þeirri staðreynd að þrátt fyrir breyttan kjarasamning yrðu kjörin eftir sem áður ein þau bestu sem þekkjast. Í því samhengi er rétt að hafa í huga að flugfélagið Play, sem enn á eftir að hefja starfsemi, hefur stært sig af því að hafa náð um 30 til 40 prósenta kostnaðarlækkun í samningum við flugmenn og flugliða borið saman við þá samninga sem WOW air var með við sínar flugstéttir – og voru þeir þó mun samkeppnishæfari en í tilfelli Icelandair.

Forstjóri Icelandair hefur sagt að skoða verði aðrar leiðir eigi að takast að bjarga félaginu. Þar hlýtur að koma til greina – af nauðsyn vegna þessarar erfiðu stöðu – að Icelandair láti reyna á forgangsréttarákvæði í kjarasamningum fyrir félagsdómi svo unnt verði að ráða flugfreyjur sem eru utan FFÍ. Dæmin sýna að ólíklegt er að slíkt ákvæði, sem er barn síns tíma og er ætlað að tryggja félagsmönnum forgang að störfum hjá Icelandair, muni standast skoðun fyrir félagsdómi. Þar hlýtur að vega þyngst sú grundvallarregla í félagarétti að einstaklingar geti staðið utan tiltekins stéttarfélags. Vilji starfsmenn, sem kjósa að vera ekki í félagi við FFÍ, semja við Icelandair þá er erfitt að sjá að hægt verði að banna það.

Flugfreyjufélagið hefur kosið að gera lítið úr þeirri staðreynd að þrátt fyrir breyttan kjarasamning yrðu kjörin eftir sem áður ein þau bestu sem þekkjast.

Icelandair hefur í raun að undanförnu leitað nauðasamninga til að koma í veg fyrir að stöðva þurfi rekstur félagsins. Auk þess að semja upp á nýtt við flugstéttirnar hefur áherslan í þeirri vinnu verið – sem má kalla Plan A – að ná samkomulagi við lánveitendur, birgja, leigusala, Boeing vegna samninga um kaup á MAX-vélunum og færsluhirði félagsins. Viðræður við suma hafa gengið vel, aðra síður. Jákvæð niðurstaða við alla er hins vegar forsenda þess að hægt verði að efna til hlutafjárútboðs – samkvæmt nýjustu áætlun á það að fara fram í ágúst – og eins að ríkið veiti félaginu lánalínu með ríkisábyrgð. Þetta er í senn flókið og risavaxið verkefni.

Takist það ekki, sem er þá til marks um að hvorki stjórnendur Icelandair né fjárfestar telji reksturinn sjálfbæran, er erfitt að sjá að stjórnvöld geti réttlætt það að stíga inn í og leggja því til fjármuni. Leita þarf þá annarra leiða. Með þeirri niðurstöðu sem liggur fyrir í viðræðum við FFÍ er líklega aðeins tímaspursmál hvenær Icelandair óskar eftir heimild fyrir tímabundnu greiðsluskjóli þar sem félaginu verður skipaður sérstakur umsjónarmaður með fjárhagslegri endurskipulagningu og samskiptum við kröfuhafa og lánadrottna. Það styttist í plan B.