Í Mósebók er sagt frá þegar faraóinn vildi ekki leysa þjóð Móse undan þrældómi svo hún gæti farið heim til Kananlands og tilbeðið guð sinn. Í stuttu máli þá tók faraóinn það ekki í mál og lagði þá guðinn Jahve þau álög á faraóinn og egypsku þjóðina, að hún skyldi þola plágu mikla og hina mestu áþján og útrýmingu.

Í fyrstu plágunni varð allt vatn í Egyptalandi blóðrautt á litinn og fúlt. Lofaði þá faraóinn bót og betrun en sveik það allt um leið og álögunum linnti. Guðinn átti þó til aðra plágu en þá sveik faraóinn bara enn og aftur og í hvert sinn sem ný plága lagðist á Egypta.

Alls urðu plágurnar tíu þessar:

Blóðrauð og fúl vötn og ár.

Froskar um allt.

Pöddur, flugur og lýs um allt.

Villdýr æða um allt og eyða öllu.

Dýrapestir sem drepa stóran hluta bústofnsins.

Kýli á mönnum og dýrum.

Stórhagl sem eyddi ökrum og trjám.

Engisprettufaraldur.

Myrkur.

Dauði frumburða.

Reyndar má auðveldlega finna tengsl þarna á milli og eru uppi tilgátur um eldgos sem litaði vatnið og mengaði svo að allur fiskur dó en þá fjölgaði froskum og flugum og svo er fólk og dýr bitið af óværu þess tíma. Stórhagl er vel þekkt fyrirbæri og gætu engisprettueggin þá hæglega hafa klakist út er eyðimerkursandurinn blotnaði við slík veðrabrigði.

Plágurnar tíu, endurkoman

Nú virðist sem þetta hafi endurtekið sig í heimssögunni, því plágurnar tíu virðast vera komnar aftur þó í annarri mynd – og nú virðast fáir ætla að taka mark á þeim, alveg eins og faraóinn forðum.

Guð okkar allra, alls mannkyns, er auðvitað náttúran sem lýtur líka lögmálum (vísindunum) en þau eru t.d. eðlisfræði og efnafræði. Tungumál þessa guðs okkar er að sjálfsögðu stærðfræðin. Þessi guð okkar, Náttúran (sem hér eftir verður ritað með stórum staf sem hæfir guðlegu vætti) – hefur gefið okkur og afkomendum nær eilífa Paradís hér á jörðu til að lifa á. Þetta er góður og gjöfull guð, móðir Náttúra.

Það þætti ekki mikil tíðindi í dag ef gos yrði í Egyptalandi með tilheyrandi vandamálum, enda ekki stærsta menningarsvæði heimsins lengur. Því verður að meta það svo – til að plágurnar í dag teldust jafngildar þeim í fornöld, yrðu þær að ná til alls heimsins og hafa sömu gereyðandi áhrif, miskunnarlausar og stórhættulegar lífi manna og dýra.

Þessar plágur sem við búum nú við í dag virðast vera svar móður Náttúru vegna brota okkar gegn lögmálum hennar, vísindunum. Þessar plágur eru því bein afleiðing af því sem við sjálf höfum gert.

Plágurnar okkar í dag eru þessar víða um heim:

Þurrkar og vatnsskortur.

Stormar sem eyða öllu með vaxandi krafti.

Skógareldar sem eyða öllu og menga.

Hungursneyð og uppskerubrestir.

Fellir húsdýra vegna vatns- og fóðurskorts.

Skordýradauði, 40% skordýrategunda fara hratt minnkandi og þriðjungur tegunda er í útrýmingarhættu.

Engisprettufaraldrar í Afríku, Ástralíu, Indlandi og Arabíuskaga.

Óbærilegar hitabylgjur á landi og sérstaklega í hafinu.

Heimsplágur, Covid-19, AIDS, SARS, ebóla og fleiri á leiðinni.

Útdauði alls lífs á jörðu, sjötti aldauðinn er hafinn (75% dauði lífríkisins innan 2,8 milljóna ára).

Sumar þessar plágur eru þegar hafnar en aðrar eru lengra komnar. Allar eru þær bráðdrepandi og eyða lífi og gróðri þar sem þær geisa.

Plágur eyða yfirleitt ekki öllu lífi í einu lagi um allan heim, heldur leggjast þær á misstór svæði og lönd. Algengt er að þessi svæði þurfi langan tíma til að jafna sig og byggjast upp aftur, sé það mögulegt.

Það má svo sem hafa skoðanir á því hvað sé hér rétt eða rangt en vonandi skilst okkur að jörðin er okkar Paradís, þar sem nóg er til ef auðlegð jarðar væri jafnt skipt milli íbúanna í Paradís. Ef við hins vegar níðumst á móður Náttúru með græðgi og eyðum skógum, heilu vistkerfunum og mengum eins og við gerum í dag – þá bregst Náttúran við og refsar grimmilega, því það er hennar eðli samkvæmt lögmálinu, hvað sem okkur finnst svo um það.

Fáar plágur koma einar og sér, því vistkerfin okkar eru í reynd mjög tengd og viðkvæm.

Til hvers var þetta jarðlíf?

En eigum við von? Getum við ekki bara lofað öllu fögru eins og faraó­inn og þá hættir þetta?

Spurningin hlýtur þá að vera hvort við getum við breytt okkur og hætt þessari græðgi, hætt að ráðast gegn Náttúrunni, hætt að fara gegn vísindunum og hafið uppbygginguna. Ef svo er þá ættum við að eiga tækifæri til að aflétta plágunum til að geta svo haldið áfram þessari dásamlegu vist okkar í Paradís.

En þessu svarar stærðfræðin þó hástöfum – að það séu sífellt minni líkur á því!

Samkvæmt nýrri loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna (SÞ) er sagt að í byrjun 2030 muni fara að hlýna um 1,5°C um allan heim eða um 10 árum fyrr en síðasta spáin sagði. Dr. Peter Carter, hópstjóri hjá einni loftslagsnefnd SÞ, sagðist í viðtali fyrr á þessu ári, hafa séð eina nýjustu tölvuspána segja 2028 eða eftir um 7 ár. Þá gæti orðið erfitt að rækta hveiti, hrísgrjón eða maís sem eru um helmingur matarforða mannkyns og til að bæta gráu ofan á svart þá fer okkur ört fjölgandi í þokkabót.

Mun líklegra er að þessar plágur muni versna hratt og magnast og ná loks að eyða nær öllu lífi á jörðinni og að það muni gerast fljótlega og mjög hratt, eiginlega eldsnöggt á jarðfræðilegum mælikvarða – eða svo segja vísindin.

Samkvæmt spám loftslagsnefndar SÞ mun jörðin hafa hlýnað í 4°C í lok þessarar aldar. Við þá hitastigshækkun verður lítið um lífvænlega staði á jörðinni og allt mannkyn sem þá er enn til, líklega komið á hraðan flótta til pólanna, í skjól.

Það væri ábyggilega fallega gert að segja nú eitthvað á þá leið – að við hljótum nú að geta snúið þessu við – en meðan ekkert er að gerast, þá er nú ekki mikil von heldur og þá væri ekki fallega gert eða rétt að koma fram með slíkar falsvonir.