Plágan gefur. Og plágan tekur. Kaupmáttur landsmanna jókst almennt í Covid-19 heimsfaraldrinum því laun hækkuðu en verðbólga fór ekki úr böndunum. Á sama tíma voru stýrivextir sögulega lágir. Í efnahagslegu tilliti hafði skrifstofufólk það betra lengst af í heimsfaraldrinum en áður.

Nú er farið að síga á ógæfuhliðina. Verðbólgan er farin á skrið og þess vegna hafa stýrivextir hækkað. Þeir voru lægstir 0,75 prósent en nema nú tveimur prósentum. Stýrivextir verða að öllum líkindum hækkaðir 9. febrúar. Margir telja að sú hækkun verði ekki minni en 0,5 prósentustig.

Oft hefur geisað verðbólga á Íslandi, meðal annars vegna þess að vinnumarkaðurinn fór fram úr sér í launakröfum, á meðan hún hefur verið skaplegri í nágrannaríkjum. Nú er verðbólgan 5,7 prósent hérlendis sem er álíka meðalverðbólgu hjá öðrum iðnvæddum ríkjum. Alþjóðlega má rekja verðbólguna til plágunnar sem hefur gert það að verkum að virðiskeðjur hafa brotnað og því nær framboð ekki að mæta eftirspurn.

Ástæða er til að hafa áhyggjur af vaxandi verðbólgu hér á landi: Heildsalar telja að vöruverð muni hækka enn frekar, það er enn húsnæðisskortur og fram undan eru erfiðar kjarasamningsviðræður.

Aðstæður eru með þeim hætti að fjöldi launafólks þarf því miður að sætta sig við litla kaupmáttaraukningu í komandi kjaraviðræðum. Kaupmáttaraukningin var jú tekin að láni. Annars verður olíu hent á verðbólgubálið.

Því miður er ekki til einföld lausn til að bæta hag landsmanna við þessar aðstæður.

Formaður VR fór til dæmis fram úr sér þegar hann vildi bæta kjör landsmanna með því að setja þak á stýrivexti. Öllu skynsamara hefði verið að horfast í augu við vandann: verðbólguna. Þingmaður Samfylkingarinnar lagði til vaxtabætur til að koma til móts við hækkandi vexti og fasteignaverð. Þannig að Seðlabankinn væri á bremsunni en löggjafinn á bensíngjöfinni. Það gengur ekki.

Markmið Seðlabankans er að halda verðbólgu í 2,5 prósentum. Lögum samkvæmt ber honum ekki að líta til hagvaxtar. Ljóst er að verðbólga verður innflutt á næstunni og lítið er hægt að gera við því. Vonandi munu stýrivaxtahækkanir, sem gætu orðið nokkrar í ár, ekki draga verulega úr getu útflutningsgreina til að sækja fram og knýja hagvöxt. n