Ýmislegt verður lesið á milli línanna í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og þá ekki síður í skiptingu ráðuneyta og þeim miklu verkefnatilfærslum sem verða á milli þeirra á nýju kjörtímabili.

Á yfirborðinu er nýja verkaskiptingin sögð eiga að endurspegla verkaefnaáherslur stjórnarinnar og þann nýja þankagang sem þekkist vel á hinum Norðurlöndunum þar sem ráðuneyti hafa í seinni tíð lagað sig að stefnumörkun stjórnvalda hverju sinni.

En gott og vel, pirringurinn er samt sem áður augljós. Vinstri grænum er ekki lengur treyst fyrir umhverfis- og heilbrigðismálum og missa þá yfir til Sjálfstæðisflokksins, helsta virkjanaflokks landsins, sem tekur yfir orku náttúrunnar, svo svíður undan í baklandi róttækra umhverfisverndarsinna sem óttast þá ákvörðun að fella orkumál og náttúruvernd undir sama ráðuneyti, en með þeim ráðahag sé hætta á að fjársterkir aðilar sem sækist eftir að virkja og spilla íslenskri náttúru fái mun meira vægi í ákvarðanatöku og jafnvægi í stjórnsýslu sé þar með raskað.

Þetta er nokkur sopi að kyngja.

Á sama tíma taka Vinstri græn yfir allan málaflokk hælisleitenda og innflytjenda og flytja hann úr gamla dómsmálaráðuneyti íhaldsins yfir í félagsmálaráðuneytið og forsætisráðuneytið, en þessi viðkvæmi málaflokkur í höndum hægrimanna hefur verið sem eitur í beinum vinstrimanna um margra ára skeið.

Þetta er hefndin fyrir að tapa náttúrunni. Og svo fær Framsóknarflokkurinn heilbrigðisráðuneytið, heitustu kartöfluna við ríkisstjórnarborðið, en fastatök Svandísar Svavarsdóttur á þeim pósti hafa farið fyrir brjóstið á einkaframtaksmönnum í heillangt kjörtímabil, en auðveldlega má lesa það út úr verkefnahringekjunni sem fór af stað á síðustu vikum sáttmálagerðarinnar að allt var gert til að koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hreppti það ráðuneyti.

En þetta er málamiðlun, augljós bræðingur þriggja stjórnmálaflokka sem hafa látið ýmislegt fara í taugarnar á sér á síðustu árum og reyna nú að læra af fýluköstunum frá því sem áður var.

En merkilegustu tíðindin eru vitaskuld þau að pólitísku öfgarnar innan veggja Alþingis nái aftur saman og stefni á átta ára samstarf hið minnsta, eins og ekkert sé sjálfsagðara, en það er bæði einsdæmi í íslenskri stjórnmálasögu og þvert á það sem þekkst hefur á hinum Norðurlöndunum þar sem flokkablokkir eru ekkert fyrir það að vinna saman.